Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segist ekki hafa fengið neinar fregnir um að skemmdir hafi orðið í bænum eftir kröftuga skjálftahrinu í nótt.
„Rétt upp úr miðnætti hófst skjálftahrina, sú öflugasta sem hefur verið síðastliðna sextán daga. Það er alltaf óþægilegra að fá þessa skjálfta á nóttinni. Fólk hrekkur upp við þetta og á kannski erfitt með svefn,“ segir Fannar.
Sjálfur segist hann hafa vaknað upp við skjálftana um miðnættið en honum hafi tekist að sofna aftur þegar hrinunni lauk.
Fannar segist hafa hitt marga í morgun, þar á meðal bæjarstarfsmenn, og er ekki sé vitað til þess að neinar skemmdir hafi orðið.
„Það er mjög lítið um það að hlutir hafi fallið úr hillum eða slíkt og fólk er auðvitað búið að fyrirbyggja tjón, meðal annars með því að taka niður uppáhalds glermuni sína og koma þeim fyrir á góða staði. Við höfum upplifað þetta oft áður en vissulega er þetta ástand óhugnanlegt.“
Fannar segir að allir séu á tánum og búi sig undir það versta en voni það besta.
„Við erum stöðugt að fara yfir gögn og reyna að hlúa sem best að íbúunum. Við treystum á þessa frábæru vísindamenn sem eru á vaktinni allan sólarhringinn sem hafa reynst okkur vel. Við höfum reynt eftir fremsta megni að halda íbúunum vel upplýstum um stöðu mála,“ segir Fannar.
„Við erum búin að halda einn stóran íbúafund og einnig minni fundi. Við viljum að fólk geti hist, beri saman bækur sínar og fái upplýsingar frá sérfræðingum á þessu sviði.“
Er eitthvað um það að fólk sé að yfirgefa bæinn og reyni að koma sér fyrir á öðrum stöðum?
„Það er frekar eins og um síðustu helgi, og verður væntanlega um komandi helgi, að fólk sem á þess kost að fara í sumarbústaði fer þangað. Þá veit ég að fólk er að fara á höfuðborgarsvæðið og versla inn fyrir jólin til að breyta aðeins um umhverfi. En lífið hér í Grindavík heldur áfram sinn vanagang eins og ekkert hafi í skorist. Skólar og leikskólar halda sínu striki sem og atvinnulífið,“ segir bæjarstjórinn, sem hefur svo sannarlega í mörg horn að líta.