Penninn varðist tölvuárásinni

Ljósmynd/Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Árás var gerð á tölvukerfi Pennans í gærmorgun. Loka þurfti öllum verslunum fyrirtækisins í kjölfarið en starfsfólk og sérfræðingateymi Pennans vörðust árásinni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pennanum.

Um Akira-árás að ræða

Í tilkynningunni segir að árásin sé ein af mörgum árásum sem gerðar hafa verið á tölvukerfi íslenskra fyrirtækja að undanförnu. Um sé að ræða svokallaða Akira-árás þar sem brotist er inn í tölvukerfi fyrirtækja eða tölvupóstar sendir á starfsfólk, hlekkir eða annars konar skjöl.

Ef smellt sé á veiruna dreifir hún sér og yfirtekur allt tölvukerfið, þrjótarnir taka gögnin í gíslingu og neita að afhenda þau nema kröfum þeirra sé mætt.

Sýndu skjót viðbrögð

Guðrún Eva Jóhannesdóttir, fjármálastjóri Pennans, segir að starfsfólk og sérfræðingar sem starfi fyrir fyrirtækið hafi sýnt afar skjót viðbrögð þegar ljóst var að árásin hafði verið gerð og hafi komið í veg fyrir að veiran færi af stað.

„Við erum sem betur fer með góðar varnir og gott teymi sem náði að bregðst hratt við. En það er gríðarlega mikilvægt að öll fyrirtæki séu meðvituð um hætturnar sem leynast þarna úti. Það er aldrei of varlega farið,“ er haft eftir Guðrúnu Evu í tilkynningunni.

Starfsfólk Pennans og sérfræðingar vinna nú hörðum höndum að því enduræsa tölvukerfin og því má gera ráð fyrir einhverju raski á opnunartíma verslana í dag. Nánari upplýsingar verða veittar á Facebook-síðu Pennans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert