Segir mannréttindi unga mannsins brotin

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Fangelsismálastjóri segir fangaverði hjá stofnuninni ekki nægilega marga til að hægt sé að reka kerfi þeirra hjá öðrum stofnunum. Hann gagnrýnir að ekki sé hægt að veita fögnum geðheilbrigðisþjónustu nema fangaverðir séu ávallt viðstaddir og segir þá kröfu ekki gerða hjá öðrum þeim stofnunum sem fangar eru vistaðir á hverju sinni, utan fangelsa. 

Guðmund­ur Ingi Þórodds­son, formaður Af­stöðu - fé­lags fanga, vakti athygli á máli ungs manns í gær, sem situr nú í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni. Guðmundur segir geðheilbrigðiskerfið hafa brugðist manninum sem er í alvarlegu geðrofi en fær ekki að leggjast inn á bráðadeild Landspítalans. 

Mál sem þessi koma reglulega upp 

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir mál sem þessi reglulega koma upp í fangelsunum. Mál þar sem fangar fá ekki aðgang að geðheilbrigðisþjónustu nema með tilteknum skilyrðum. Skilyrðin eru að það séu ávallt viðstaddir fangaverðir segir Páll, allan þann tíma sem viðkomandi er á sjúkrastofnun.

„Það er eitthvað sem fangelsismálastofnun getur ekki. Við höfum ekki mannafla til að reka okkar kerfi hjá öðrum stofnunum.“

Auk heldur segir Páll það ekki verkefni fangelsismálastofnunar að halda uppi öryggisgæslu í öðrum stofnunum. Hann nefnir sem dæmi að engum hafi dottið í hug að láta fangaverði sitja yfir einstaklingum sem eru vistaðir á Stuðlum, eða á öðrum þeim stofnunum þar sem fangar eru vistaðir hverju sinni utan fangelsa. 

Geðdeildir þurfa að vera í stakk búnar til að tryggja öryggi

Páll segir nauðsynlegt að leysa málið til lengri tíma, enda þurfi geðdeildir að vera í stakk búnar til þess að geta tryggt öryggi sjúklinga hvort sem þeir eru frjálsir menn, handteknir menn, fangar í gæsluvarðhaldi eða afplánun. 

Hann segir það þannig skjóta skökku við að stofnun, eða deild, sem gefur sig út fyrir að vista hættulega einstaklinga, sem eru hættulegir umhverfinu, sjálfum sér og/eða öðrum, geti tryggt öryggi fyrir almenna borgara sem eru í þannig aðstöðu, en ekki fyrir fanga sem eru í þörf fyrir bráða geðheilbrigðisþjónustu.  

Víða pottur brotinn

Spurður hvort ekki sé verið að brjóta mannréttindi þessa unga manns, með því að veita honum ekki þá heilbrigðisþjónustu sem hann þarf á að halda, svarar Páll því játandi. Hann segir jafnframt að eftirlitsaðilar hafi þegar bent á það og að umboðsmaður Alþingis hafði meðal annars minnst á vandamálið í ársskýrslu sinni fyrir síðasta ár. 

„Þannig að jú það er víða pottur brotinn, það verður að koma þessu í ásættanlegan farveg.“

Setja hagsmuni sjúklinga í forgrunn

Er einhver aðstoð sem þið getið veitt innan fangelsanna?

„Við rekum ekki sjúkrastofnanir og svona þjónustu er ekki hægt að veita annars staðar en á sjúkrastofnunum. Það er ekki heilbrigðisþjónusta á sólahringsgrundvelli í fangelsum landsins. Þetta er átakanlegt fyrir alla sem að að þessu koma,“ segir hann. 

Páll segir Fangelsismálastofnun þó setja hagsmuni sjúklinga í forgrunn og að stofnunin hafi reynt að safna saman starfsfólki af skrifstofu Fangelsismálastofnunar til að kanna hvort að hægt yrði að sinna mönnun með þeim hætti, í ljósi þess að fangaverðirnir eru ekki nógu margir. 

„En þrátt fyrir það þá munum við ekki geta útvegað mannskap til að vera fyrir utan geðdeild í marga sólarhringa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert