Litlar sprungur hafa myndast í yfirborði Grindavíkurvegar í jarðskjálftunum sem staðið hafa yfir síðustu daga.
Á vef Vegagerðarinnar segir að sprungurnar séu innan við sentímetra að stærð og að sumar eldri sprungur hafi stækkað. Þær eiga ekki að hafa áhrif á burð vegarins eða öryggi og því sé ekki ástæða til að hafa áhyggjur.
„Vegagerðin fylgist grannt með öllum breytingum á vegakerfinu á þessu svæði og mun bregðast hratt við ef þörf verður á því. Þetta er staða sem hefur komið upp í fyrri jarðskjálftahrinum þannig að það er komin nokkur reynsla á að fylgjast með framvindunni,“ segir í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar.