Telur 60% líkur á að það gjósi fljótlega

Þorvaldur segir að það sé ekki seinna vænna en að …
Þorvaldur segir að það sé ekki seinna vænna en að fara að byggja upp varnargarða í kringum Svartsengi. Samsett mynd

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjalla- og bergfræði við Háskóla Íslands, segir að það sé ekki seinna vænna að fara að byggja upp varnargarða í kringum Svartsengi.

Kröftug jarðskjálftahrina hófst á Reykjanesskaga eftir miðnætti í nótt og mældist stærsti skjálftinn 5 að stærð. Upptök hans voru rétt vestur af Þorbirni.

Innri þrýstingur að byggjast upp

„Þessir skjálftar sýna okkur að innri þrýstingur er að byggjast upp í þessu geymsluhólfi á fjögurra til fimm kílómetra dýpi. Það er stöðugt innstreymi og landrisið er hluti af þeirri rúmmálsbreytingu sem er þarna,“ segir Þorvaldur við mbl.is.

„Það er líka að byggjast upp þrýstingur inni í hólfinu og þegar hann er orðinn það mikill og meiri en brotþolið á þakinu fyrir ofan þá verður stærri skjálfti og fleiri sprungur sem myndast. Eftir því sem þetta gengur lengra þá eru meiri líkur á að kvikan fari upp á yfirborðið.“

Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri og jarðskjálftafræðingur á Veðurstofunni, sagði í samtali við mbl.is í gær að loknum upplýsingafundi með íbúum Suðurnesja að líklegast myndi landrisið í nágrenni við Þorbjörn hætta. Inntur álits á þessu segir Þorvaldur:

„Það getur alveg hætt og þá verður ekki neitt gos sem við vonum öll. Ef við horfum aftur í tímann og skoðum þetta í sögulegu samhengi þá er þetta fimmta innskotið á fjórum árum á nokkurn veginn sama stað sem þýðir að það er greinilega einhver kvikugeymsla dýpra sem er að þenja sig. Það sjáum við á Fagradalsfjalli. Ef þetta stoppar núna þá myndi ég halda að þetta færi aftur af stað eftir einhvern tíma,“ segir Þorvaldur.

Líkurnar 60/40 á að það gjósi fljótlega

Hver er þín tilfinning núna. Eru meiri líkur en minni að það fari að gjósa fljótlega?

„Ef ég tek líkurnar, sem er hrein og bein ágiskun, þá held ég að líkurnar á að það gjósi fljótlega séu 60/40. Við getum því miður ekki sagt nákvæmlega til um stöðuna en ef við ætlum að reyna að vernda þá innviði sem eru þarna þá verðum við að fara út í varnaraðgerðir núna,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur hvetur fólk til þess að vera viðbúið að yfirgefa svæðið.

„Svartasta myndin er alls ekki sú líklegasta en hún er enn þá inni í myndinni og þá verðum við að gera ráð fyrir því í öllum okkar aðgerðum og viðbrögðum. Ég myndi frekar vilja kalla eftir rýmingu oftar og líta út eins og kjáni í fjölmiðlum en að vera með mannslíf undir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert