Einstakt sjónarspil varð milli Venusar og tunglsins í morgun þegar sjá mátti Venus hverfa á bakvið tunglið. Slíkt gerist tiltölulega sjaldan þar sem bilið er jafnan meira milli tunglsins og stjarnanna.
Sævar Helgi Bragason, betur þekktur sem Stjörnu-Sævar, segir þá sem ekki sáu sjónarspilið, ekki þurfa að örvænta þar sem von er á fleiri álíka sjónarspilum í mánuðinum. Hann segir tunglið minnkandi þessa dagana en þann 13. nóvember verður það nýtt og eftir það birtist það á kvöldhimninum.
Næsta sjónarspil verður því á kvöldhimninum, þegar Satúrnus á stefnumót við tunglið mánudaginn 20. nóvember, segir hann. Eftir það hittir tunglið fyrir Júíter að kvöldi föstudagsins 24. nóvember, en Sævar segir Júpíter skína skærast á kvöldhimninum.
Aðspurður segir hann tunglið einn mánuð að fara hringinn í krinum jörðina. Tunglið og Venus mætast því minnst einu sinni í mánuði, hvort sem það er á kvöldin eða morgnana, en bilið er þó ekki alltaf jafn mikið segir hann og sjónarspilið því ekki jafn magnað.
Sævar heldur úti stjörnufræðivef þar sem hann birtir tilkynningar sem þessar, í færslu sinni frá því á mánudag segir hann frá því hversu vel nóttin á tunglinu er upplýst þessa dagana. Í samtali við blaðamann segir hann að í morgun hafi til að mynda verið hægt að sjá nóttina upplýsta í tunglinu.
Til útskýringar segir hann að í morgun hafi mátt sjá sigðarlagabirtu á dimma hluta tunglsins, eða þar sem dagur er á tunglinu. Þá mátti jafnframt sjá hluta af næturhlið tunglsins, sem er að fara yfir tunglið núna. Sævar segir þetta kallast jarðskin, en það er ljós sem speglast af Jörðinni og lýsir upp tunglið, á samskonar hátt og fullt tungl lýsir upp nóttina á jörðinni.