Upptaka: Svakaleg læti þegar skjálftinn reið yfir

Skjálftahrinan í nótt var sú kröftugasta frá því að atburðarásin …
Skjálftahrinan í nótt var sú kröftugasta frá því að atburðarásin hófst 25. október. mbl.is/Sigurður Bogi

Mikil læti fylgdu skjálftunum sem riðu yfir suðvesturhorn landsins í nótt en hrinan var sú öflugasta frá því að atburðarásin hófst þann 25. október. Hús hristust og lausamunir féllu sums staðar í gólfið.

Lilja Ósk Sigmarsdóttir, íbúi í Grindavík, birti upptöku af hljóðbroti frá því í nótt þegar skjálfti af stærðinni 4,1 reið yfir.

„Það var ekki mikið sofið í nótt,“ segir Lilja í samtali við mbl.is. „Þetta var svona það versta. Það komu svo margir snarpir stórir skjálftar í röð.“

Búin að forða sem mestu

Lilja býr í einbýlishúsi á jaðrinum á Grindavík og eru upptök skjálftanna oft nálægt heimili hennar. Hún líkt og aðrir íbúar, er orðin langþreytt á ástandinu sem ríkir og segir mikil óþægindi fylgja hrinunum.

Hún var sofnuð þegar fyrsti stóri skjálftinn reið yfir laust eftir miðnætti. Sá var af stærðinni 4,2 og fannst vel í byggð. Talsverður fjöldi skjálfta fylgdi í kjölfarið þar á meðal einn klukkan 01.35 sem var 4,3 að stærð og náði Lilja upptöku af hljóðinu þegar heimili hennar tók að hristast.

Mikil læti mátti heyra á upptökunni og greinilegt að skjálftinn var snarpur. Engar skemmdir urðu þó á heimilinu, að sögn Lilju.

„Við erum eiginlega búin að forða sem mestu, því sem einhverju skiptir máli. Við erum búin að setja flest á gólfið sem getur brotnað. Það er búið að jarðskjálftavæða heimilið.“

„Maður er alltaf að bíða

Lilja hafði orðið vör við minni skjálfta upp úr klukkan hálf ellefu en var þó sofnuð þegar að fyrsti stóri skjálftinn reið yfir klukkan 00.02.

„Maður er alltaf að bíða. Þetta er búið að vera óvenju rólegt þangað til núna. Það er pínu skrítið að vera að bíða eftir jarðskjálftum. Svo þegar það er ekki búið að vera í langan tíma er maður órólegur yfir því að það séu ekki jarðskjálftar. Það er skrítin stemning.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka