Varnargarðar reistir þegar tillagan liggur fyrir

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Samsett mynd

„Tillagan þarf auðvitað að liggja fyrir og yfir hana þarf að fara áður en ákvörðun er tekin, það hlýtur að blasa fyrir öllum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Var hún þar að svara fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, um uppbyggingu varnargarða vegna hugsanlegra eldsumbrota í grennd við Svartsengi.

Allt frá fyrstu umbrotum á Reykjanesskaga hefur verið unnið að því að kortleggja svæðið í samvinnu við almannavarnir og aðra á svæðinu, sagði Katrín í svari sínu. Þá sagði hún að innviðahópur almannavarna hefði þegar skilað af sér tillögum að mögulegum varnargörðum og að þær tillögur hefðu að undanförnu verið í rýni hjá almannavörnum.

Ákvörðunarfælni ríkisstjórnarinnar

Í máli sínu vísaði Sigmundur til þess að Ármann Hösk­ulds­son, eld­fjalla­fræðing­ur og jarðefna­fræðing­ur við Jarðvís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands, hefði lýst því yfir að framkvæmdir við varnargarða ættu að vera hafnar, að ríkisstjórnin virtist í þessu máli haldin einhverri ákvarðanafælni auk þess sem upplýsingaóreiða fylgdi þessu í miklu mæli.

Þá vísaði Sigmundur jafnframt í orð Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns almannavarnadeildar, um að ákvörðunin væri löngu tímabær. 

Sigmundur spurði Katrínu því hvort ekki væri tímabært að fara að ráðum þessara sérfræðinga. „Að minnsta kosti taka ákvörðun og helst þá að hefja framkvæmdir til að verja byggð og innviði. Því eins og sérfræðingar benda á, þá er of seint að hefjast handa þegar eldgos er hafið.“

Heimildir almannavarna breytast eftir viðbúnaðarstigum

Katrín svaraði því til að þegar væri hafin vinna við að setja hæla í jörð til að móta fyrir línum að varnargörðum, auk þess sem búið væri að tryggja bæði efni og tæki. Hins vegar sagði hún framkvæmdirnar enn ekki komnar á það stig að tillaga lægi fyrir frá almannavörnum, þó hún ætti von á þeirri tillögu á allra næstu dögum. 

Hvað varðar heimildir til að grípa til aðgerða sagði Katrín þær breytast eftir viðbúnaðarstigum. 

„Ef við færumst á hættustig þá breytast heimildir almannavarna til að grípa til slíkra aðgerða.“

Tillagan liggur ekki fyrir

Loks spurði Sigmundur hvort skilja mætti forsætisráðherra, og formann þjóðaröryggisráðs, sem svo að ef fram kæmi tillaga frá almannavörnum um að ráðast í gerð varnargarða, þá myndi forsætisráðherra tafarlaust samþykkja að fara að þeirri tillögu? 

Katrín sagði það ekki alveg svo, þar sem tillagan þyrfti að liggja fyrir, auk þess sem fara þyrfti yfir hana með öðrum sérfræðingum áður en ákvörðunin yrði tekin.

„Það hlýtur að blasa við öllum,“ sagði Katrín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert