73% hlynnt kvennaverkfallinu

Tæp 27% kvenna segjast hafa mætt á Arnarhól í kvennaverkfallinu, …
Tæp 27% kvenna segjast hafa mætt á Arnarhól í kvennaverkfallinu, þann 24. október, samkvæmt nýrri könnun Prósents. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þó um 73% Íslendinga voru hlynntir verkfallsaðgerðum kvennaverkfallsins þann 24. október voru tæp 15% karla andvíg þeim, samanborið við um 3,5% kvenna.

Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Prósent framkvæmdi dagana 30. október til 9. nóvember. Þar fengu 2.300 Íslendingar kost á að taka þátt í könnuninni, þó aðeins 51% þeirra svöruðu. 

Ein spurning var aðeins fyrir konur og kvár en ekkert kvár svaraði þó könnuninni. Voru þau spurð hvort þau hefðu mætt á samstöðufundinn á Arnarhóli eða samstöðufund annars staðar á landinu.

Í ljós kom að 26,7% kvenna hefði mætt á fundinn á Arnarhóli, 8,6% mætt á fund annars staðar á landinu en 64,8% ekki mætt á samstöðufund.Samkvæmt þessu mættu um 35% kvenna á samstöðufundinn.

Baráttufundur vegna kvennaverkfalls.
Baráttufundur vegna kvennaverkfalls. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Besta mætingin hjá tekjuhærri konum

Um 40% kvenna sem búsettar eru í Reykjavík mættu á samstöðufund í samanburði við um 33% kvenna sem búa í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og um 31% á landsbyggðinni.

Hlutfall kvenna sem mættu var hærra í tekjuhæsta hópnum í samanburði við þann tekjulægsta. Um 27% kvenna með einstaklingstekjur undir 400 þúsund krónur mættu í samanburði við 42% kvenna með einstaklingstekjur að upphæð 800 þúsund krónur eða hærri.

87% kvenna hlynnt verkfallinu

Einnig var spurt um afstöðu til verkfallsaðgerðum kvennaverkfallsins og um 73% svarenda sem tóku afstöðu voru hlynnt verkfallsaðgerðum Kvennaverkfallsins. Um 18% voru hvorki hlynnt né andvíg og um 9% voru andvíg.

Marktækur munur er þó á afstöðu eftir kyni. Um 87% kvenna voru hlynnt verkfallsaðgerðum í samanburði við um 59% karla. En tæp 26% karla voru hvorki hlyntir né andvígir á meðan 15% karla voru andvígir. 

Íslendingar á aldrinum 18 til 24 ára voru hlynntari verkfallsaðgerðum en þau sem eldri eru. Allir aldurshópar voru þó að megni hlynntir verkfallsaðgerðunum.

Flestir telja verkfallið hafa jákvæð áhrif á réttindabaráttuna

Um 66% þjóðarinnar eru sammála fullyrðingunni að kvennaverkfallið muni hafa jákvæð áhrif á réttindabaráttu kvenna og kvára, 22% eru hvorki sammála né ósammála og 12% eru ósammála.

Marktækur munur er eftir kyni þátttakanda. Tæp 79% kvenna eru sammála fullyrðingunni í samanburði við rúm 54% karla.

Um 74% íbúa Reykjavíkur eru sammála því að Kvennaverkfallið muni hafa jákvæð áhrif á réttindabaráttu kvenna, um 68% íbúa nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur og um 56% íbúa á landsbyggðinni. Íbúar Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga eru marktækt meira sammála en íbúar landsbyggðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert