„Við ætlum ekki í neinar rýmingar og eldgos virðist ekki vera yfirvofandi á næstunni, en þetta eru vísbendingar sem við þurftum til þess að hækka viðbúnaðinn okkar,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is.
Hættustigi almannavarna hefur verið lýst yfir.
„Þetta er þessi gríðarlega jarðskjálftahrina seinni partinn í dag og vegna þess finnst okkur ástæða til að auka viðbúnaðinn,“ segir Víðir.
Skjálftahrinan á upptök sín austur af Sýlingafelli, og því ekki á þeim stað þar sem kvikugangurinn hefur verið talinn liggja og reiknað hefur verið með að gos kunni að brjótast út.
Víðir segir að þrátt fyrir það séu uppi ýmsar sviðsmyndir sem sýna að hraun gæti enn runnið að virkjuninni.
„Nú erum við komin á þennan stað og fylgjumst með,“ segir hann.