Bregðast eins skjótt við og unnt er

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ríkisstjórnina vera að bregðast við eins skjótt og unnt er hvað varðar útfærslu varnargarða í Svartsengi, þar sem mögulegt er að eldgos brjótist upp.

„Almannavarnir sendu dómsmálaráðherra bréf í gærkvöldi, þar sem þetta er lagt til, til að verja mikilvæga innviði. Dómsmálaráðherra lagði bréfið fram í ríkisstjórn í morgun og við erum þegar byrjuð að hefja vinnu við að móta nauðsynlegar lagaheimildir til að geta brugðist við.

Það er nokkuð sem kallar á undirbúning. Auðvitað er undirbúningur hafinn að mörgu leyti að þessum varnargörðum – búið að ráðast í hönnun og töluverðan undirbúning nú þegar. En það þarf að hafa samráð við ýmsa aðila sem verður ráðist í núna.“

Strax á dagskrá

Er þetta að gerast nógu fljótt miðað við aðstæður?

„Ég tel að við séum að bregðast eins skjótt við og unnt er. Þetta erindi barst okkur í gærkvöldið og þetta mál var strax tekið á dagskrá ríkisstjórnar og við erum þegar komin á fullt við að vinna úr því.“

Ekki að tilmælum stjórnvalda

Eftir kröftuga skjálftahrinu aðfaranótt fimmtudags tóku rekstraraðilar Bláa lónsins ákvörðun um að loka starfsemi fyrirtækisins í Svartsengi tímabundið. Hótelið Northern light inn fetaði í fótspor nágranna sinna og ákvað að loka einnig tímabundið.

Spurð hvort hún telji að stjórnvöld ættu að koma til móts við atvinnurekendur á svæðinu, sem lokuðu þrátt fyrir að hafa ekki fengið tilmæli um slíkt frá almannavörnum, svarar Katrín:

„Það er auðvitað ekki að tilmælum stjórnvalda. Að einhverju leyti kannski eru gestir farnir að taka eigin ákvarðanir út frá hættu. Auðvitað þurfum við bara að vega og meta framhaldið eins og þessu vindur fram. Það er alveg ljóst að þetta er flókin staða fyrir atvinnurekendur að vera í.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert