„Enginn hérna sem ekki er hræddur núna“

Bogi Adolfsson, formaður Þorbjarnar í Grindavík, segir jörðina ekki hafa …
Bogi Adolfsson, formaður Þorbjarnar í Grindavík, segir jörðina ekki hafa stoppað þar í á annan tíma. Samsett mynd

„Okkur er sagt að það sé ekkert að fara að gjósa þótt ég ætli ekki að fullyrða neitt um það, en núna erum við bara að rúnta á ýmsum farartækjum um bæinn, athuga stöðuna og hvort íbúarnir þurfi einhverja aðstoð,“ segir Bogi Adolfsson, formaður Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í samtali við mbl.is.

Hann segir jörð skjálfa nánast stöðugt í Grindavík og sjálfur hafi hann ekki upplifað neitt viðlíka á ævinni.

„Jörðin hefur ekki stoppað í klukkutíma og þetta eru mjög stórir skjálftar, húsið hjá okkur hoppar bara um,“ segir Bogi og bætir því við að straumur bifreiða liggi út úr bænum og frá stöðugum jarðskjálftunum þar.

Straumur bifreiða liggur frá Grindavík eins og ástandið er þar …
Straumur bifreiða liggur frá Grindavík eins og ástandið er þar nú. mbl.is/Sigurður Bogi

Ekki friður milli eldgosa og jarðskjálfta

Bogi er spurður um staðsetningu goss sem hugsanlega yrði við Sundnúkagíga, norðan Grindavíkur. Teldi hann gos þar heppilegri staðsetningu en á svæðinu kringum Bláa lónið?

„Enginn möguleiki er góður og við tæklum bara það sem við fáum en það eru til megináætlanir fyrir allt svæðið. En við fáum nú ekki mikinn frið milli eldgosa og jarðskjálfta til að vinna eins og áður var en það er búið að gera eins og hægt er,“ segir formaðurinn.

„Ég held það sé enginn hérna sem ekki er hræddur núna,“ segir Bogi Adolfsson, formaður Þorbjarnar í Grindavík, af stöðu mála þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert