„Einstaklingar eru alltaf flokkaðir inn eftir bráðleika,“ segir Andri Ólafsson, samskiptastjóri Landspítalans og ítrekar að slík flokkun hafi farið fram að óbreyttu þegar sjúklingar þurftu að bíða í sjúkrabílum við komu á bráðamóttökuna.
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sagði í dag að sjúkraflutningamenn hefðu farið í 155 sjúkraflutninga síðasta sólarhringinn.
Sagði í færslu slökkviliðsins að allt hefði verið á öðrum endanum á bráðamóttökunni og að sjúklingar hefðu þurft að bíða í bílunum í allt að 30 mínútur.
Í samtali við mbl.is ítrekar Andri að enginn í bráðri hættu sé látinn bíða á deildinni. Fólk taki ekki númer á bráðadeildinni heldur sé flokkað eftir bráðleika, og því ávallt hliðrað til í starfseminni til að annast einstaklinga í bráðri hættu.
Það þýði að sumir þurfi að bíða, þar á meðal sumir í sjúkrabílum, enda séu ekki allir sem komi með sjúkrabíl í bráðri hættu. Einn álagsvaldur bráðamóttökunnar sé einmitt að sumir einstaklingar leiti þangað sem ekki eigi þar erindi, heldur eigi frekar að leita á læknavaktina eða heilsugæslu.
Hann segir álagið á spítalanum vissulega hafa verið mikið undanfarna daga, m.a. vegna fjölgunar öndunarfærasýkinga, Covid-smita og tilfella inflúensu, eins og fram kemur í nýlegri tilkynningu spítalans.
Er þar biðlað til fólks að íhuga vel hvort það þurfi að leita á bráðamóttöku, í stað heilsugæslu eða á læknavakt.
Andri segir álag á bráðamóttökunni og á spítalanum vera gamla sögu og nýja, enda hafi lengi verið vandi tengdur aðflæði og fráflæði, þar sem skortur á úrræðum eins og öldrunarheimilum leiði til þess að ekki sé hægt að útskrifa einstaklinga og senda í viðeigandi úrræði.
Vandinn á bráðamóttökunni sé því í raun aðeins sjúkdómseinkenni stærri vanda innan íslenska heilbrigðiskerfisins.