Gæti gosið á næstu klukkustundum

Þorvaldur Þórðarson ræddi við mbl.is.
Þorvaldur Þórðarson ræddi við mbl.is. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðað við aukna skjálftavirkni undanfarnar klukkustundir er hugsanlegt að kvika sé komin á hreyfingu á Suðurnesjum og gæti því leitað sér leiðar upp á yfirborðið við Sundhnúkagíga á næstu klukkustundum.

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, í samtali við mbl.is en hann vill meina að miðað við skjálftavirknina undanfarna daga kæmi það ekki á óvart að kvika væri komin á hreyfingu.

Hættustig almannavarna

Hættustigi hefur verið lýst yfir af hálfu almannavarna vegna ákafrar jarðskjálftahrinu við Sundhnúkagíga, norðan Grindavíkur.

„Ef þessi skjálftavirkni sem er í gangi er bein afleiðing af kvikuhreyfingu, þá er kvikan á leiðinni upp við Sund­hnúka,“ segir Þorvaldur.

Skjálftar á Suðurnesjum síðustu 6 klukkustundir.
Skjálftar á Suðurnesjum síðustu 6 klukkustundir. Kort/Map.is

„Það gæti verið einhverjar klukkustundir eða jafnvel dagar“

„Þetta er mjög skörp og snögg aukning í skjálftavirkni. Ég veit ekki hvort skjálftarnir eru að grynnka eða hvort það séu einhver greinileg merki um að kvikan sé að rísa upp til yfirborðs, en þetta gæti verið að gefa það til kynna. Það kæmi ekki á óvart,“ segir Þorvaldur.

„Þegar kvikan er komin af stað, þá er spurning um hvort hún muni komast upp á yfirborð og hversu langan tíma það tekur. Það gætu verið einhverjar klukkustundir eða jafnvel dagar,“ segir hann.

„En kannski frekar klukkustundir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert