Hættustigi hefur verið lýst yfir vegna ákafrar jarðskjálftahrinu við Sundhnúkagíga, norðan Grindavíkur.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra, sem kveðst hafa lýst þessu yfir í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum.
„Skjálftar geta orðið stærri en þeir sem hafa átt sér stað og gæti þessi atburðarás leitt til eldgoss. Hins vegar eru engin merki enn um að kvikan sé að leita á yfirborðið. Fylgst er vel með framvindunni,“ segir í yfirlýsingunni.
Enn fremur eru íbúar hvattir til þess að fylgjast með upplýsingagjöf á almannavarnir.is, vedur.is og í fjölmiðlum.
Hættustig almannavarna er skýrt sem svo að hætta fari vaxandi og að gripið sé til ráðstafana til að tryggja sem best öryggi þeirra sem á svæðinu búa/dvelja. Slíkt sé gert með því að efla viðbúnað á viðkomandi svæði.