Jarðskjálfti reið yfir suðvesturhorn landsins kl. 12.45. Skjálftinn fannst vel um allan Reykjanesskagann og á höfuðborgarsvæðinu.
Fyrstu mælingar Veðurstofu benda til þess að skjálftinn hafi átt upptök sín rétt austur af Sýlingafelli, nærri Sundhnúkagígaröðinni sem fjallað var um á mbl.is fyrr í dag.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni var skjálftinn 4,3 að stærð.
Lesendur mbl.is fundu skjálftann meðal annars á Mýrum, í Borgarnesi, á Akranesi, og í Þykkvabæ.
Tæplega 800 skjálftar hafa mælst á þessum slóðum frá miðnætti, þar af níu af stærð 3 eða stærri.