Katrín: Hugur landsmanna er hjá Grindvíkingum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir segir að hugur landsmanna sé hjá Grindvíkingum og þeim sem næst eru upptökum jarðskjálftanna sem hafa riðið yfir Suðurnesin á síðustu klukkustundum.

„Þetta er ótrúlega óþægileg og óhugnanleg staða fyrir íbúa á Suðurnesjum, sérstaklega í Grindavík,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

Allir að vinna hörðum höndum

„Ég held að hugur allra landsmanna sé hjá Grindvíkingum og þeim sem eru næst skjálftunum akkúrat núna. Við finnum auðvitað fyrir þeim hérna á höfuðborgarsvæðinu og vitum hvað þetta er alveg skelfilega óhugnanlegt,“ bætir hún við.

Katrín bendir á að allir viðbragðsaðilar vinni hörðum höndum að því að tryggja öruggar leiðir til og frá Grindavík, en Grindavíkurvegi var lokað í kjölfar þess að öflugur skjálfti setti sprungu í veginn.

Vinna hafin við að reisa varnargarða

Hættustigi var lýst yfir vegna skjálftanna um kl. 18 í kvöld. Vinna við að reisa varn­argarða í kring­um virkj­un­ina í Svartsengi á Reykja­nesskaga hófst stuttu síðar þegar Guðrún Haf­steins­dótt­ir dóms­málaráðherra setti vinnuna af stað í sam­ráði við al­manna­varn­ir, Verkís og fleiri, þrátt fyr­ir að frum­varp þess efn­is hafi enn ekki verið lagt fyr­ir þingið.

„Nú erum við náttúrulega komin á hættustig og þá eru auðvitað ríkari heimildir til þess að ráðast í ýmsar framkvæmdir. Við [ríkisstjórnin] höfum líka verið að undirbúa frumvarp í dag,“ segir Katrín.

Frumvarpið sem hún vitnar til miðar að því und­ir­búa ramma svo hægt verði að fara í for­varn­araðgerðir sem skjótast, í því skyni að hefja upp­bygg­ingu varn­argarða áður en hugs­an­leg elds­um­brot hefjast. 

„Við miðum samt við það að við leggjum fram þetta frumvarp til að hafa mjög skýra lagaheimild fyrir þeim framkvæmdum sem þarf að ráðast í. Því við erum væntanlega að sjá fram á áframhald,“ segir Katrín að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka