Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjalla- og bergfræði við Háskóla Íslands, segir að því miður sé möguleiki á að kvikugangur sé undir Grindavík. Snarpir skjálftar hafa átt upptök sín beint undir bænum nú í kvöld.
„Það kemur mér pínulítið á óvart skjálftarnir skuli teygja sig svona langt suður eftir. En náttúran hefur sinn hátt á,“ segir Þorvaldur spurður út í skjálftavirknina í kvöld.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir neyðarstigi og rýming er hafin í Grindavík.
Þorvaldur segir rétt að rýma Grindavík.
„Það er ekki eftir neinu að bíða með það. Þetta er komið þarna undir og þá erum við komin með möguleika að kvika sé þarna undir. Hún getur þá komið upp þarna í bænum, en hún getur komið upp annars staðar og við skulum vona það,“ segir Þorvaldur.
Hann bætir við að hann vonist til þess að kvikan komi upp norðanmegin í Sundhnúkagígaröðinni.