Kvikuinnskot að myndast við Sundhnúkagíga

Jarðskjálftahrina hófst fyrr í dag.
Jarðskjálftahrina hófst fyrr í dag. Kort/Map.is

Rauntímagögn Veðurstofunnar benda til að kvika sé núna að mynda innskot við Sundhnúkagíga, um 3 kílómetra norðaustur af Grindavík.

„Merkin sem við sjáum – við erum ekki búin að staðfesta það, benda til að þar sé aðal aflögunin, norðarlega á Sundhnúkagígum. Það er í rauninni gömul gosgígaröð, og norðarlega á þeirri gígaröð teljum við okkur vera að sjá mjög mikil gliðnunarmerki. Við fáum staðfestingu á því í nótt hversu stórt mikið það er.

„En það sem við virðumst vera að sjá er upphafið að svipuðum kvikugangi eins og við höfum verið að sjá í Fagradalsfjalli sem á endanum leiddi til eldgosa.“

Þurfum að undirbúa okkur undir stutta atburðarás

Benedikt segir erfitt að fullyrða um tímaramma.

„Fyrst liðu þrjár vikur frá því að þessi atburðarás byrjaði og þangað til við sáum gos og svo styttist það eftir því sem fleiri atburðir verða. Í síðasta gosi tók það fimm daga,“ segir hann.

„Við þurfum að undirbúa okkur undir stutta atburðarás til nokkra vikna jafnvel. Við getum í rauninni ekkert sagt meira.“

Verið að setja upp vefmyndavélar

Að sögn Benedikts er verið að setja upp vefmyndavélar sem snúa að Sundhnúkagígum. 

Er einhver staður líklegri en annar – sem sagt að gos komi upp?

„Nei, það er ekkert hægt að fullyrða um það. Við sjáum hvar skjálftavirknin byrjaði en svo verðum við bara að sjá hvernig hún þróast í tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert