Agnar Már Másson
Lögreglan á Suðurnesjum hefur virkjað sína viðbragðsáætlun. Einnig er búið að virkja aðgerðastjórn í Reykjanesbæ og vettvangsstjórn í Grindavík.
Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is. Greint var frá því fyrir skömmu að skjálftarnir hefðu myndað stóra sprungu í Grindavíkurvegi.
Skjótt í kjölfar skemmdanna lokaði lögreglan veginum.
Úlfar bendir á að Nesvegur og Suðurstrandarvegur séu enn opnir og að íbúar sem hyggjast ferðast úr Grindavík geti farið þær leiðir.
Aðspurður segist hann þó ekki vita hvort margir Grindvíkingar séu farnir að yfirgefa bæinn.
„Við erum bara með þetta í einhverjum tökum,“ segir Úlfar.
„Við erum búin að virkja viðbragðsáætlun. Þannig við erum með fjölda manns í aðgerðum í augnablikinu en gos er í sjálfu sér ekki yfirvofandi. Þetta eru bara jarðhræringar – jörð skelfur hér á Suðurnesjunum.“
Hann segist ekki hafa upplýsingar um meira tjón sem skjálftarnir hafi valdið í kvöld, annað en sprunguna á Grindavíkurvegi. Hann segist heldur ekki vita til þess hvort einhver sé slasaður vegna öflugra skjálfta.