Mun liggja fyrir á næstu klukkustundum

Sigurður Ingi innviðaráðherra ræddi við mbl.is um mögulega varnargarða við …
Sigurður Ingi innviðaráðherra ræddi við mbl.is um mögulega varnargarða við virkjunina í Svartsengi. Samsett mynd

Dómsmálaráðherra bárust tillögur um varnargarða í kringum Svartsengi frá almannavörnum í gærkvöldi. Að sögn Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra mun útfærsla frá ríkisstjórninni liggja fyrir á næstu klukkustundum. 

Þetta kom fram í samtali mbl.is við Sigurð að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Hann segir ríkisstjórnina nú vinna að því að undirbúa ramma til þess að hægt verði að fara í forvarnaraðgerðir sem hraðast, í því skyni að hefja uppbyggingu varnargarða áður en hugsanleg eldsumbrot hefjast. 

Hefja undirbúning í forvarnarskyni sem fyrst

Aðspurður segir Sigurður ríkisstjórnina einhuga um að hefja sem fyrst undirbúning í forvarnarskyni. Því verði lögð áhersla á að vinna tillögur almannavarna, sem bárust Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra í gær, hratt.

Hann segir óljóst hvernig tillögurnar verði útfærðar nákvæmlega, en að það muni skýrast á næstu klukkutímum. 

„Ríkisstjórnin er algjörlega einhuga um að það sé eina vitið að hlusta á þau góðu rök almannavarna og undirbúning sem við erum búin að vera með núna í þrjú ár.“

Hann áréttar þó að fari viðbúnaðarstig úr óvissustigi á hættustig, þá verði hægt að grípa hraðar til mun róttækari aðgerða. 

„En þá er tíminn auðvitað orðinn mun knappari.“

Horfa fyrst og fremst til almannavarnaviðbragða

Sigurður segir ríkisstjórnina ekki hafa rætt hvort komið verði til móts við atvinnurekendur á svæðinu. Hann segir ríkisstjórnina fyrst og fremst vera að horfa til almannavarnaviðbragða og til þess að verja mikilvæga innviði á svæðinu, sem varða almenning á Íslandi, en ekki síst á Reykjanesskaga.

„Við erum enn þá í atburðarás þar sem við erum á óvissustigi. Við erum oft á óvissustigi á Íslandi og ekkert alvarlegt gerist, þannig að við skulum nú sjá til og vona það besta, en við verðum líka að vera undirbúin undir allt það versta.“

Hvað viltu segja við íbúa á svæðinu?

„Ég held að menn eigi bara að halda áfram að fylgjast með þeim upplýsingum sem koma frá almannavörnum og okkar bestu vísindamönnum.“

Þá segir hann þá fundi, sem haldnir hafa verið fyrir íbúa á svæðinu, hafa verið mjög upplýsandi og góða. Hann segir mikilvægt að fylgja þeim eftir og að íbúar kynni sér þær upplýsingar sem hafa farið inn á heimasíður sveitarfélaganna, að loknum fundunum.

„Það eru allir að reyna að gera sitt besta og munu reyna að vara við með eins miklum fyrirvara og hægt er, ef eitthvað gerist. En það er líka alveg eins líklegt að það gerist ekkert, það veit enginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert