Magn þeirrar kviku sem nú er á hreyfingu, í kvikugangi sem liggur frá Sundhnúkagígum og í átt að Grindavík, er umtalsvert meira en sést hefur í stærstu innskotunum sem orðið hafa í tengslum við eldgosin við Fagradalsfjall.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.
Líkur eru á að kvikugangur hafi teygt sig undir Grindavíkurbæ, eins og mbl.is hefur þegar greint frá.
Í tilkynningunni segir að miklar breytingar hafi orðið á skjálftavirkninni og aflögun jarðskorpunnar nú síðla dags og að skjálftavirknin hafi færst suður í átt að Grindavíkurbæ.
Kenningin um kvikugang undir bænum er reist á þessu og einnig á niðurstöðum úr GPS-mælingum.
„Á þessu stigi er ekki hægt að segja til um nákvæmlega hvort og hvar kvika geti náð til yfirborðs. Vísbendingar eru um að talsvert magn kviku sé á hreyfingu á svæði sem liggur frá Sundhnúkagígum í norðri í átt að Grindavík,“ segir í tilkynningunni.
„Magn kviku sem um ræðir er umtalsvert meira en sést hefur í stærstu kvikuinnskotunum sem urðu í tengslum við eldgosin við Fagradalsfjall. Verið er að afla frekari gagna til að reikna líkön sem gefa nákvæmari mynd af kvikuganginum. Á þessari stundu er ekki hægt að segja til um hvenær þeirri vinnu lýkur.“
mbl.is fylgist áfram með þessari hröðu atburðarás: