Vörur féllu úr hillum í stærstu skjálftunum í Nettó í Grindavík í dag. Í kjölfarið var ákveðið að rýma verslunina og loka henni skammri stund fyrir hefðbundinn lokunartíma.
Heiðar Róbert Birnuson, rekstrarstjóri Nettó, segir að ekki sé búið að ákveða hvenær verslunin muni opna aftur og að í forgangi sé einfaldlega að tryggja öryggi starfsmanna.
„Við vorum í undirbúningi fyrir vörutalningu og verslunin var opin. Það var ákveðið að hætta við vörutalninguna. Svo í kröftugustu skjálftunum var ákveðið að rýma verslunina, loka henni og senda starfsfólk úr versluninni,“ segir Heiðar í samtali við mbl.is.
„Það voru vörur að falla úr hillum og öryggi starfsfólks var ógnað. Þannig við ákváðum að koma fólki út úr byggingunni. Næst var að athuga hvort allir hefðu öruggt skjól. Við bókuðum tólf hótelherbergi í Reykjavík fyrir starfsfólk sem var ekki með góða aðstöðu til að leita í,“ segir Heiðar.
Nettó hefur í kvöld aðstoðað starfsfólk við að koma sér fyrir fyrir nóttina eða helgina. Svo verður staðan metin næstu daga.
Heiðar segir það ekki í forgangi að opna verslunina aftur, eiginlega ekkert starfsfólk sé eftir í bænum og fáir íbúar.
„Það var reyndar einn starfsmaður eftir í bænum sem gat afgreitt björgunarsveitina um birgðir núna í kvöld,“ segir Heiðar og bætir við að Nettó muni reyna að verða þeim og viðbragðsaðilum innan handar ef nauðsyn krefst.