Hraunflæðilíkan sem keyrt var fyrir almannavarnir í kvöld, þar sem miðað var við þann stað sem líklegastur þykir fyrir eldgos, bendir ekki til þess að hraun muni renna í átt að Grindavík.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum.
„Ef sú atburðarás er skoðuð sem endaði í eldgosinu sem hófst 19. mars og á meðan skjálftavirknin grynnkar ekki verulega úr því sem komið er, þá er líklegasta sviðsmyndin sú að nokkrir dagar líði frekar en klukkustundir áður en kvika nær til yfirborðs,“ sagði í tilkynningu Veðurstofunnar á áttunda tímanum.
„Ef sprunga kæmi upp þar sem skjálftavirknin er hvað mest núna, myndi hraun renna til suðausturs og til vesturs en ekki í átt til Grindavíkur.“