Sammála um atburðarásina sem er í gangi

Víðir Reynisson segir að varnargarðarnir skipti gríðarlega miklu máli.
Víðir Reynisson segir að varnargarðarnir skipti gríðarlega miklu máli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, vonast til þess að framkvæmdir við að koma upp varnargörðum í kringum Svartsengi geti hafist um eða eftir helgina.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði við mbl.is í morgun að ríkisstjórnin væri að vinna að því að undirbúa ramma til þess að hægt verði að fara í forvarnaraðgerðir sem hraðast, í því skyni að hefja byggingu varnargarða áður en hugsanleg eldsumbrot hefjast.

Varnargarðar skipta gríðarlega miklu máli

„Við erum búin að vera að undirbúa það í nokkurn tíma að vera með allt klárt sem þyrfti til að fara af stað í framkvæmdir við varnargarða. Við reiknum með að það liggi fyrir ákvörðun hjá Alþingi mjög fljótlega og það gætu hafist framkvæmdir um eða eftir helgina ef allt gengur eftir,“ segir Víðir í samtali við mbl.is.

Víðir segir að varnargarðarnir geti skipt miklu máli. Ekki bara varðandi það sem er í gangi núna heldur í heildar atburðarásinni fyrir Reykjanesið.

„Það er gríðarlega mikið undir í þessu orkumannvirki á Svartsengi, sem er hjartað í allri þessari þjónustu á Suðurnesjum, og þess vegna viljum við fara út í þessar framkvæmdir að reisa varnargarða,“ segir Víðir.

Frá Svartsengi þar sem stendur til að reisa varnargarða.
Frá Svartsengi þar sem stendur til að reisa varnargarða. mbl.is/Arnþór

Hættumatið er óbreytt

Víðir og hans teymi hjá almannavörnum er svo sannarlega á tánum og hefur verið það frá því jarðskjálftahrinan fór af stað þann 25. október. Síðastliðin nótt var frekar róleg á skjálftasvæðinu en virknin hefur færst í aukana eftir því sem liðið hefur á daginn og klukkan 12.45 mældist skjálfti af stærðinni 4,3.

„Það er einhver hrina í gangi núna en hættumatið er óbreytt. Það streymir kvika inn með svipuðum hraða og áður og við eigum von á þessum gikkskjálftum. Þrátt fyrir að þetta sé í gangi þá erum ekki komin nein merki um að kvikan sér að brjóta sér leið upp á yfirborðið,“ segir Víðir.

Menn kannski í of miklum vangaveltum

Fjöldi sérfræðinga, vísindamanna og viðbragsaðila koma að ákvörðunum um viðbrögð við því ástandi sem er í gangi og segir Víðir mikilvægt að upplýsingar valdi ekki óreiðu.

„Vísindamenn eru allir sammála um þá atburðarás sem er í gangi. Ég hef ekki heyrt neinn vísindamann tala öðruvísi heldur en það en sú sviðsmynd að kvika sé að koma inn á 5 kílómetra dýpi sem hugsanlega á endanum getur brotist út. Síðan hafa menn verið að ræða um þá hluti út frá þeirri tímalínu sem verður eftir að gosið hefst. Hvar þar byrjar og hvað er hraunið lengi að renna þangað,“ segir Víðir.

Hann segir að fyrir marga fari það að verða ruglingslegt þegar menn eru að tala um það og séu ekki endilega að tala um sama hlutinn.

„Það er munur hvort það kemur upp eldgos í Eldvörpum, í Sýlingafelli eða við Svartsengi. Það hefur valdið aðeins ruglingi að þetta geti gerst allt í einu eða við séum ekki sammála um það hvað hraunið sé lengi að renna,“ segir Víðir.

„Menn eru kannski í of miklum vangaveltum um hvar þetta getur komið upp. Við erum búin að teikna upp viðbragð sama hvar gosið kemur upp. Þetta eru tiltölulega þekkt svæði sem þetta getur komið upp. Þetta kemur ekkert hvar sem er en það eru samt sem áður það margir staðir og við erum með plan klárt fyrir það.“

Skynsamleg ákvörðun

Spurður út í þá ákvörðun Bláa lónsins, og hótelsins Northern light inn, að loka starfsemi sinni í eina viku segir Víðir:

„Mér fannst þetta skynsamlegt ákvörðun hjá þeim sem og hjá HS Orku með sína starfsemi sem er ekki með neitt starfsfólk að næturlagi. Þessir skjálftar eru svo nálægt þessum stöðum og eru óþægilegir fyrir gesti og starfsfólkið.“

Almannavarnir stóðu fyrir upplýsingafundi í Skógarhlíð í byrjun vikunnar og segir Víðir nær öruggt að annar fundur verði haldinn eftir helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert