„Alþingi ályktar að án tafar skuli komið á vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza-svæðinu svo tryggja megi öryggi almennra borgara, jafnt palestínskra sem ísraelskra. Alþingi fordæmir öll ofbeldisverk sem beinast gegn almennum borgurum í Palestínu og Ísrael. Alþingi krefst þess að alþjóðalögum sé fylgt í einu og öllu í þágu mannúðar, öryggis almennra borgara og verndar borgaralegra innviða,“ segir í ályktun Aþingis sem samþykkt var með 49 samhljóða atkvæðum, eftir tvær umræður á þingfundi í gær.
Tillaga þessa efnis var lögð fyrir þingið af utanríkismálanefnd en þar hafði hún verið samþykkt einum rómi, eftir að sættir náðust á milli nefndarmanna stjórnar og stjórnarandstöðu um orðalag hennar.
Í ályktuninni segir að Alþingi fordæmi hryðjuverkaárás Hamas-liða á almenna borgara í Ísrael sem hófst 7. október sl. Sömuleiðis fordæmir Alþingi allar aðgerðir ísraelskra stjórnvalda í kjölfarið sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum, þ.m.t. óheyrilega þjáningu, manntjón, mannfall almennra borgara og eyðileggingu borgaralegra innviða. Brýnt sé að öll brot stríðandi aðila á alþjóðalögum verði rannsökuð til hlítar.
„Alþingi kallar eftir mannúðlegri meðferð á og tafarlausri lausn gísla, aðgengi hjálpar- og mannúðarsamtaka og að neyðarvistum og læknisaðstoð verði komið til almennings tafarlaust,“ segir þar og jafnframt var ríkisstjórninni falið að beita sér fyrir viðbótarframlagi til mannúðaraðstoðar og rannsóknar á brotum á alþjóðalögum til að fylgja eftir þeim áherslum sem fram koma í ályktuninni.
Í framsöguræðu formanns utanríkismálanefndar, Diljár Mistar Einarsdóttur, kom m.a. fram að lífsviðhorf Íslendinga og gildi kölluðu á afdráttarlausa fordæmingu hryðjuverka, fordæmingu á ofbeldi og brotum á alþjóðalögum og skýra kröfu um að þeim væri fylgt undantekningarlaust.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þakkaði í atkvæðaskýringu utanríkismálanefnd fyrir góða vinnu þar sem dregin væru fram skýr sjónarmið sem birtast í tillögunni og fyrir að vinna þá vinnu í samstöðu. Sagði hún gríðarlega mikilvægt að Ísland sendi þannig skýr skilaboð út í alþjóðasamfélagið, skýran vilja Alþingis um tafarlaust vopnahlé og að alþjóðalög væru virt í þágu mannúðar. „Ég vil nýta tækifærið og segja að ég er mjög stolt af því að tilheyra Alþingi Íslendinga á svona tímum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.