Atli Steinn Guðmundsson
„Þetta gengur bara vel, tíu eru mættir í Kórinn en ég held nú bara að enginn sé mættur annars staðar,“ segir Oddur Freyr Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, um fjöldahjálparstöðvar sem nú hafa verið opnaðar í Íþróttahúsinu í Grindavík, Kórnum í Kópavogi, Vallarskóla á Selfossi og Íþróttahúsinu við Sunnubraut í Reykjanesbæ.
Segir Oddur verkefnið fara rólega af stað enda hafi engin rýming átt sér stað enn sem komið er.
„Ég held að það sé ágætt að taka því rólega, við vonum það alla vega,“ heldur Oddur áfram og kveðst gera ráð fyrir að margir íbúar Grindavíkur eigi í önnur hús að venda hjá vinum og vandamönnum.
Nokkrir tugir starfsmanna Rauða krossins manna stöðvarnar sem verða opnar svo lengi sem þörf er á.
„Við erum í viðbragðsstöðu, allt er tilbúið, við opnuðum stöðvarnar til að fólk hefði einhvern stað til að koma á þannig að allt sé til reiðu, en eins og staðan er núna er ekki neyðarástand og þetta fer bara rólega af stað. Það er líka mikilvægt að halda því til haga að það er ekki búið að rýma enn þá og samkvæmt því sem almannavarnir eru að segja núna er ekki ástæða til að óttast eins og er þótt ég skilji mjög vel að fólk sé óttaslegið,“ segir Oddur Freyr Þorsteinsson að lokum.