Skjálftar við Sundhnúkagíga mögulega vegna kviku

Nokkuð þétt jarðskjálftahviða hófst um klukkan 7 í morgun austan …
Nokkuð þétt jarðskjálftahviða hófst um klukkan 7 í morgun austan við Sýlingafell. Kort/map.is

Jarðvísindamenn Veðurstofunnar skoða nú hvort virknin við fjallið Þorbjörn á Reykjanesskaga sé að færast í austur frá Svartsengi.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að ekki sé hægt að útiloka að skjálftavirknin við Sundhnúkagíga sé vegna kviku á talsverðu dýpi.

Þeir stóru brotaskjálftar

Þétt jarðskjálftahviða hófst um klukkan sjö í morgun við Sýlingafell og Sundhnúkagíga. Gígarnir eru um 2-3 km norðaustan við Grindavík. Um 800 skjálftar hafa mælst á þessum slóðum frá miðnætti, þar af níu sem eru yfir þremur að stærð.

„Stóru skjálftarnir eru að öllum líkindum brotaskjálftar en svo er önnur virkni þarna sem við erum að skoða. Hvort að virknin sé að færast eða kerfið að breytast,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, sér­fræðing­ur Veður­stof­unn­ar í jarðskorpu­hreyf­ing­um, í samtali við mbl.is.

„Við erum að vinna í að meta gögnin, meta hvort þetta sé gikkskjálftavirkni eða eitthvað annað.“

Hann ítrekar þó að of snemmt sé að fullyrða hvort um gikkskjálftavirkni sé að ræða.

Hvað eru gikkskjálftar?

Gikkskjálftar verða þegar kvika flæðir inn í jarðlög og myndar kvikugang, eins og þróunin er nú norðvestur af Þorbirni. Þá myndast þrýstingur í jarðskorpunni sem skapar spennu á svæðum í kringum kvikuganginn.

Sú spenna losnar í skjálftum og er þá um að ræða svokallaða gikkskjálfta sem eru merki um spennulosun, en tákna ekki að kvika sé á hreyfingu á þeim svæðum sem þeir mælast.

Stórir skjálftar valda aflögun

Spurður út í mögulegar breytingar á landrisi sem komu fram á GPS-mælum í gær, segir Benedikt að erfitt sé að lesa í gögnin núna þar sem skjálftavirkni gæti hafa haft áhrif á mælingar. 

„Við erum að reyna að sigta út færslurnar í skjálftunum og átta okkur á hvort þetta voru einhverjar aðrar hraðabreytingar en það. [...] Þetta er orðið mikið af stórum skjálftum sem valda mikilli aflögun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka