Skjálftavirknin á Reykjanesskaga hefur fært sig yfir í Sundhnúkagígaröðina á undanförnum sólarhring. Segja má að hrina stærri skjálfta hafi hafist þar í morgun eftir tiltölulega rólega virkni frá því eftir hádegi í gær.
Skjálftarnir í nótt mældust allir undir 2 að stærð en stærstu skjálftarnir í dag hafa mælst 3,5 og 3,3 að stærð.
Skjálftar morgunsins á svæðinu hafa nær allir orðið í Sundhnúkagígaröðinni, sem liggur austur af Sýlingafelli og því hinum megin við fellið frá virkjuninni í Svartsengi.
Alls hafa um 23 þúsund jarðskjálftar mælst í jarðskjálftahrinunni sem hófst við Þorbjörn þann 25. október.
Stærsti skjálftinn í hrinunni mældist 4,8 aðfaranótt fimmtudags og átti upptök rétt vestan við Þorbjörn.