Telur gos í vændum og líklega annars staðar

Ármann segir langverst ef kvika kemur upp í Sundhnúkasprungunni.
Ármann segir langverst ef kvika kemur upp í Sundhnúkasprungunni. Samsett mynd

Ármann Höskuldsson, eld­fjalla­fræðing­ur við Jarðvís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands, telur að eldgos muni koma upp á Reykjanesskaga eftir um fjórar til sex klukkustundir eða í síðasta lagi um hádegi á morgun. 

„Þakið er bara að bresta,“ segir Ármann í samtali við mbl.is. 

Ármann segist ekki telja að kvika muni koma upp við Sundhnúkagíga heldur þar sem þensla hefur verið að mælast, við Illahraunsgíga eða Eldvörp. 

„Þenslan segir til um hvar kvikan kemur upp,“ segir hann. Gengur þetta þvert á útgefið mat vísindamanna Veðurstofunnar, sem telja að gjósa muni við Sundhnúkagíga.

Sinnuleysið orðið alvarlegt

Hann segir langverst ef kvika kemur upp í Sundhnúkasprungunni.

„Það verður svo vont ef það kemur þar. Þá kemur það bara hraðar og fer yfir virkjunina. Við erum ekki búin að byggja garða eða gera eitt eða neitt. Sinnuleysið sem er búið að vera í gangi – núna er það að verða mjög alvarlegt,“ segir Ármann.

Jarðskjálftavirknin hefur verið hvað mest við Sundhnúkagíga í dag, en þó hefur virknin verið víðar m.a. við Eldvörp og Illahraun. 

„Það yrði auðvitað bara tóm hamingja ef eldgos kæmi við Eldvörp því þar er nóg af plássi, jú, það eru einhverjar borholur þarna, en þar er langt í mikilvæga innviði,“ segir Ármann. 

Almannavarnir sendu út tilkynningu nú á tíunda tímanum í kvöld þar sem segir að mjög skýr merki séu um kvikugang til yfirborðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert