„Þetta er bara dagaspursmál“

Ármann Höskuldsson telur miklar líkur vera á eldgosi á næstu …
Ármann Höskuldsson telur miklar líkur vera á eldgosi á næstu dögum. Samsett mynd

„Þakið er að gefa sig, þetta er bara þannig. Fyrir mér er þetta bara dagaspursmál hvenær þetta kemur upp,“ segir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur og jarðefnafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, spurður út í skjálftahrinuna sem varð á Reykjanesskaga í fyrrinótt.

Aðspurður segir Ármann það ekki vera spurningu hvort það muni koma til eldgoss á Reykjanesskaga, heldur hvenær.

„Þú getur ekkert dælt inn í þetta hólf endalaust. Berg hefur bara ákveðna sveigju og möguleika til þess að taka við og á endanum þá er spennan orðin svo mikið að þakið einfaldlega brestur. Og þá er gatið komið til yfirborðsins.“ 

Kort/mbl.is

Munur á forvörnum og vörnum

Ármann segir mikilvægi forvarna ótvírætt þegar komi að eldgosum, en hann kveðst afar hlynntur hugmyndum um byggingu varnargarða. 

„Menn verða bara að horfast í augu við það að ef að virkjunin dettur út eru áhrif eldgossins orðin mjög víðtæk og það verður náttúrulega að reyna að sporna gegn því,“ segir Ármann. 

Hann segir mikilvægt að gerður sé greinarmunur á forvörnum og vörnum hvað varði varnargarða, sem ekki skili sama árangri. 

„Ef þú ert í vörnum þarf allt að gerast svo hratt og þá svo hæpið hvernig þetta tekst, en ef menn fara í forvarnir þá geta menn undirbúið sig til þess að vera viðbúnir.“

Kort/mbl.is

Heitavatnsleysi um hávetur varhugavert

Ármann bendir á að mikið sé í húfi við virkjunina í Svartsengi sem sjái þúsundum heimila fyrir vatni og rafmagni. 

„Við erum að tala um þessa stóru verksmiðju sem býr til rafmagn, heitt vatn og sér um að dæla köldu vatni og allt saman. Það er náttúrulega bara mjög mikilvægt, sérstaklega vegna þess að við erum að fara í dimmasta og kaldasta kafla vetrarins, að þetta sé græjað.

Ef þú vilt ekki að þrjátíu þúsund manns verði heitavatnslausir, þá byggirðu garða. En ef þér er alveg sama um það að þrjátíu þúsund manns verði heitavatnslausir um háveturinn, þá læturðu þetta eiga sig."

Svartsengi í gærmorgun.
Svartsengi í gærmorgun. mbl.is/Arnþór

„Ógjörningur“ að byggja varnargarða á síðustu stundu

Ármann leggur áherslu á það ef til eldgoss komi sé aðalhættusvæðið það sem umlyki virkjunina við Svartsengi. Á endanum fari hraunið síðan í suður til sjávar og ógni þar með vesturbyggðum Grindavíkur og því sé æskilegt að hefja uppbyggingu varnargarða þar, fyrr heldur en seinna.

„Það að ætla að byggja þetta á síðustu stundu, það er næstum því ógjörningur,“ segir Ármann. Hann tekur þó fram að þegar gos hefjist hafi Grindvíkingar þó nokkurn tíma til þess að rýma bæinn ef þess þarf. 

„Grindvíkingar geta í rauninni vera tiltölulega slakir því eins og þetta lítur út núna verður hraunið ekki komið þangað fyrir 4-5 daga. Það á ekki að þurfa að vera panikk en menn þurfa bara að vita þetta.

Hreinar og klárar upplýsingar verða að liggja fyrir fyrir um hvað er mögulegt og hvað er ekki mögulegt. Þá veit fólk hvað getur orðið í aðsigi og allt frá verstu sviðsmyndinni er gott, það er bara þannig.“

Yfirlitskort af fyrirhuguðum varnargörðunum.
Yfirlitskort af fyrirhuguðum varnargörðunum. Kort/Verkís
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka