Grindavíkurvegur rifnaði sundur í kröftugustu jarðskjálftunum síðdegis í dag. Gunnar Stefán Bjarnason, íbúi í Grindavík, og kona hans voru að keyra veginn til Grindavíkur þegar hann fór í sundur og tók bíll þeirra stökk á veginum.
„Við vorum búin að finna fyrir jarðskjálftunum í bílnum á leiðinni. Svo sáum við að bíllinn fyrir framan okkur hægði á sér. Síðan sjáum við ekki neitt fyrir framan okkur. Svo allt í einu kemur sprunga beint fyrir framan okkur. Hún reis ekki upp fyrir framan okkur, hún var bara allt í einu fyrir framan okkur. Við verðum bara skíthrædd og bíllinn bara hoppar. Við tökum eiginlega ramp á þetta, bíllinn skoppar, svo lendir eitt hjól og svo annað,“ segir Gunnar.
Hann segir þau lítið hafa hugsað út í það að komast út í kant eftir að bíllinn var aftur lentur á jörðinni. Þau bara stöðvuðu bílinn og hringdu í lögregluna.
„Lögreglan var sirka tíu mínútur á leiðinni og kom og lokaði veginum,“ segir Gunnar. Þau stigu út úr bílnum áður en lögreglan kom og fundu allan tímann fyrir skjálftum.
„Ég var í sveitinni þegar Eyjafjallajökull var að fara að gjósa. Það var hræðsla þá. En þarna hef ég aldrei verið jafn hræddur á ævinni. Mér leið eins og skjálftinn væri bara beint fyrir neðan. Maður skoppaði eiginlega bara upp og niður,“ segir Gunnar.
Bíllinn, þó mikið tjónaður, var ökuhæfur og komust þau til Grindavíkur. Þar tók á móti þeim ófögur sjón, allir lausamunir á heimilinu voru komnir út um allt. Tengdafaðir Gunnars kom og sótti þau til Grindavíkur og þegar mbl.is talaði við hann voru þau á leiðinni til Reykjavíkur.
Ætla þau að leita á bráðamóttökuna í kvöld, en mikið högg varð þegar þau lentu aftur á jörðinni eftir að sprungan opnaðist undir bílnum. Þau munu svo eyða nóttinni hjá móður Gunnars í Reykjavík.