Vélar í orkuverum HS Orku í Svartsengi og Reykjanesvirkjun fóru út í skjálftahrinunni á Reykjanesskaga sem stendur nú yfir.
Búið er að koma vélum í Reykjanesvirkjun í gagnið en unnið er að því að koma vélum í Svartsengi í gagnið á ný.
Þetta staðfestir Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi HS Orku. Hún segir bilanirnar ekki hafa haft áhrif á afhendingu rafmagns.
Þá varð lítið sem ekkert tjón þegar að eldur kom upp í klæðningu orkuversins í kvöld. Að sögn Birnu var eldurinn smávægilegur og gekk slökkvistarf hratt og vel.