„Við höfum ekki fundið svona mikið áður“

„Þetta var óþægilegt en er búið núna – allavega í …
„Þetta var óþægilegt en er búið núna – allavega í bili,“ segir bæjarstjórinn.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir allt með kyrrum kjörum í bæjarfélaginu. Íbúar séu ekki á flótta úr bæjarfélaginu eins og í Grindavík.

Öflug jarðskjálftahrina hófst í dag við Sundhnúkagíga og Grindavík. Fundust skjálftarnir vel í Grindavík og Reykjanesbæ.

„Við fundum vel fyrir þessu milli klukkan fjögur og hálf átta. Þetta var óþægilegt en er búið núna – allavega í bili,“ segir Kjartan Már í samtali við mbl.is.

„Þetta er sérstakt“

Að sögn Kjartans hafa íbúar ekki orðið varir við svona þétta og öfluga jarðskjálftahrinu áður.

„Þetta er sérstakt. Alveg einstakt. Við höfum ekki fundið svona mikið áður.“

Hann kveðst þó ekki hafa heyrt af neinum skemmdum í skjálftunum í dag. 

Spurður hvort hann hafi áhyggjur af hugsanlegu eldgosi sem gæti brotist út á næstu klukkutímum eða dögum, segir hann svo ekki vera.

Eldgosið kæmi líklega upp á stað sem væri langt frá Reykjanesbæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert