Willum segir nauðsynlegt að tryggja skýran farveg

Páll Winkel og Willum Þór Þórsson.
Páll Winkel og Willum Þór Þórsson. Samsett mynd

Heilbrigðisráðherra segir það alveg skýrt að veita skuli heilbrigðisþjónustu.

Það sé þó til skoðunar innan ráðuneytisins hvar ábyrgðin liggur, hvort það sé fangelsismálastofnunar eða spítalanna, að sinna gæslu yfir frelsissviptum einstaklingum. 

Mál ungs fanga sem situr í gæsluvarðhaldi komst í kastljós fjölmiðla á dögunum þar sem maðurinn, sem var í alvarlegu geðrofi, fékk ekki að leggjast inn á bráðadeild Landspítalans. Farið var með manninn á geðdeild í gær og sagði Páll Win­kel fang­els­is­mála­stjóri að hann yrði þar á meðan mannaflinn leyfði.

Stofnunin hefði ekki mannafla

Áður en ákveðið var að fara með manninn á geðdeild sagði Páll í samtali við mbl.is að fangelsismálastofnun hefði ekki mannafla til að reka kerfin sín hjá öðrum stofnunum.

Þá gagnrýndi hann að geðdeildir landsins væru ekki í stakk búnar til þess að tryggja öryggi sjúklinga, hvort sem þeir væru frjáls­ir menn, hand­tekn­ir menn, fang­ar í gæslu­v­arðhaldi eða í afplán­un. 

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir lagarammann þó skýran að því leyti að heilbrigðisþjónustan hvíli á heilbrigðisráðuneytinu og í heilbrigðiskerfinu.

Þrátt fyrir það sé nauðsynlegt að tryggja að farvegur frelsissviptra einstaklinga, sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, sé skýr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert