„Furðulegasta spurning sem ég hef fengið“

Hannes er fyrsti Íslendingurinn til þess að taka þátt í …
Hannes er fyrsti Íslendingurinn til þess að taka þátt í keppninni. Ljósmynd/Hannes Þórður Hafstein Þorvaldsson

Ísland á einn fulltrúa í heimsmeistarakeppninni í karókí sem fram fór í Panama í vikunni.

Í keppninni, sem haldin hefur verið undanfarin tuttugu ár, taka fulltrúar þrjátíu þjóða þátt. Í ár kepptust ríflega tíu þúsund einstaklingar um að sæti í keppninni í undankeppnum víða um heim. 

Ísland hefur aldrei áður átt fulltrúa í keppninni og var það fyrir einskæra tilviljun að lyfjafræðingnum Hannesi Þórði Hafstein Þorvaldssyni bauðst tækifæri til að verða fyrstur Íslendinga til að stíga á svið fyrir Íslands hönd. 

„Vissi ekkert hvað hann var að tala um“

Hannes, sem starfar sem fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun, var staddur í vinnuferð í Osló í vor þegar hann ákvað að líta inn á karókí-stað að loknum vinnudegi. 

„Ég rambaði þarna inn á karókí-stað í Osló og tek eitt lag. Umsjónarmaðurinn á græjunum var nokkuð ánægður með þetta lag hjá mér og hrósaði mér fyrir það,“ segir Hannes, en eftir að hafa sungið annað lag stuttu seinna gaf maðurinn sig á tal við Hannes. 

„Hann spurði mig hvar ég byggi og átti væntanlega við hvar ég byggi í Noregi, upp á að fá mig með í einhverja forkeppni. Ég vissi náttúrulega ekkert hvað hann var að tala um,“ segir Hannes, sem kveðst ekki hafa vitað að hægt væri að keppa í karókí.

„Svo var hann himinlifandi þegar ég sagðist vera frá Íslandi þar sem hann var búinn að vera í þrjú ár að reyna að auglýsa eftir því að fá að halda forkeppni á Íslandi eða að fá íslenskt fólk í keppnina í Noregi.“ 

Ákvað að láta slag standa

Umræddur maður heitir Henning og er fulltrúi allra Norðurlandanna nema Finnlands í keppninni. Hann spurði Hannes hvort hann mætti tilnefna hann sem fulltrúa Íslands í heimsmeistarakeppninni í karókí sem fram færi í Panama í Suður-Ameríku nokkrum mánuðum síðar. 

Hannes flaug þvert yfir hnöttinn til þess að spreyta sig …
Hannes flaug þvert yfir hnöttinn til þess að spreyta sig í keppninni, sem haldin er í Panama. Ljósmynd/Hannes Þórður Hafstein Þorvaldsson

„Heimsmeistarakeppnin í karókí í Panama núna í haust, þetta er bara furðulegasta spurning sem ég hef á ævi minni fengið,“ segir Hannes léttur í bragði. „„Gjörsamlega stórskrýtið,“ sagði ég bara við hann beint út.“

Hannes ákvað þó að láta slag standa og tekur nú þátt í keppninni, sem hófst á þriðjudag og lýkur í dag. Hann hefur nú þegar sungið sitt fyrsta lag af fjórum. Fyrir valinu varð lagið „Bella María de Mi Alma“ sem kemur fyrir í kvikmyndinni Mambo Kings frá árinu 1992. 

Segir sameiningarkraft söngsins sterkan

Að sögn Hannesar hefur keppnin farið vel af stað og finnur hann fyrir mikilli samstöðu og vinskap milli keppenda, sem hann segir vera hverja öðrum hæfileikaríkari. 

„Það er alveg ótrúlegt að heyra í fólkinu hérna, þetta er alveg brjálað dæmi,“ segir Hannes. Hann kveðst jafnframt snortinn yfir þeim vinskap sem nú þegar hefur myndast á milli keppenda af ólíkum þjóðernum. 

Hannes segir að vel hafi tekist til við flutning fyrsta …
Hannes segir að vel hafi tekist til við flutning fyrsta lagsins, en hann gæti komið til með flytja fjögur lög í keppninni. Ljósmynd/Hannes Þórður Hafstein Þorvaldsson

„Hér er fólk allsstaðar úr heiminum og á innan við klukkutíma líður manni eins og maður hafi þekkt það í tíu ár. Það eru allir svo glaðir, gefandi, opnir og hressir alveg sama frá hvaða menningarheimi þeir koma. Ætli það sé ekki söngurinn sem gerir fólk svona glaðlynt og opið.“

„Átakanlegar öfgar í sitthvora áttina“

Þrátt fyrir að gleðin ráði ríkjum á meðal keppenda, sem staddir eru á hóteli í miðborg Panama, hafa mótmæli, óeirðir og órólegt pólitískt ástand sem ríkir innan borgarinnar ekki farið framhjá Hannesi. 

„Það var verið að skjóta táragasi að fólki í gær þannig að á tímabili á meðan á keppninni stóð máttum við ekki fara í herbergið okkar í gegnum miðgarðinn á hótelinu af því að það væri ekki gott fyrir röddina að anda að sér táragasinu sem var að berast yfir,“ segir Hannes og bætir við að á þriðjudag hafi skotárás orðið í kjölfar mótmæla sem stóðu yfir í grennd við hótelið. 

Að sögn Hannesar ríkir mikill vinskapur á milli keppenda. Hér …
Að sögn Hannesar ríkir mikill vinskapur á milli keppenda. Hér sést hann ásamt Nataliu Marín, fulltrúa Noregs í ár. Ljósmynd/Hannes Þórður Hafstein Þorvaldsson

„Þannig að það er margt í gangi í Panama á meðan við erum bara í okkar búbblu inni á hóteli að syngja í vinalegum fíling og allir í góðu skapi. Þetta eru svolítið átakanlegar öfgar í sitt hvora áttina.“

Mikilvægt að grípa tækifærin

Hannes segist ánægður með að hafa gripið tækifærið sem honum bauðst á karókí-barnum í Osló í vor sem hann segir hafa leitt til eins konar „öskubuskuævintýris“.

„Ef maður passar sig á því að vera ekki að loka á neitt getur maður lent í ótrúlegustu hlutum. Það þarf bara að grípa tækifærin þegar þau koma,“ segir Hannes loks.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka