Forsætisráðherra segir atburðarásina á Reykjanesskaganum undanfarna daga vera með stærri viðburðum síðari tíma.
„Við erum auðvitað í gríðarlegri óvissu. Líkur á gosi eru búnar að aukast, þannig við getum átt von á því að eldsumbrot hefjist á næstunni,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is.
„Það er alveg ljóst að þetta eru með stærri viðburðum á síðari tímum.“
Seint í gærkvöldi lýsti almannavarnadeild ríkislögreglustjóra yfir neyðarstigi og var Grindavíkurbær rýmdur. Ekki er ljóst hvenær Grindvíkingar geti aftur snúið heim.
„Það er auðvitað gríðarlega stór ákvörðun að krefjast þess að tæplega fjögur þúsund manns yfirgefi heimili sín. Slík ákvörðun er ekki tekin nema í mjög velígrunduðu máli. Ég tel að almannavarnir hafi unnið út frá bestu mögulegum gögnum. Það er gríðarleg óvissa.“
Finnst þér hafa verið gert ráð fyrir því að Grindvíkingar gætu þurft að vera degi lengur utan heimilis í kjölfar rýmingar?
„Jú, ég held að fólk sé alveg meðvitað um það að þetta geti dregist á langinn. Það var auðvitað strax farið í það að opna þrjár fjöldahjálpastöðvar og sú vinna sem hefur staðið yfir í dag er að kortleggja húsnæði til lengri tíma og hvernig verði að tryggja til að mynda skólagöngu barna og þá þjónustu sem er nauðsynleg fyrir fólk.“
Fyrr í dag lagði Katrín fram frumvarp um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesi. Hún segir einhug ríkja í ríkisstjórninni um innihald frumvarpsins en frumvarpið kveður m.a. á um að leggja skuli árlegt forvarnagjald á allar húseignir, sem nemi 0,08‰ af brunabótamati samkvæmt lögum um brunatryggingar. Gjaldið myndi renna í Ríkissjóð.
„Þetta er inni í lögum um Náttúruhamfaratryggingar og hugsunin er sú að við getum nýtt þennan sjóð til forvarna, því náttúruhamfaratryggingar eru fyrst og fremst til þess að bæta tjón en ekki vera í forvörnum.
Við leggjum þetta til svona vegna þess að þetta snýst um aðgerðir sem hægt er að ráðast í tiltölulega hratt,“ segir Katrín en til stendur að reisa varnargarða á Suðurnesjum til að vernda virkjunina í Svartsengi.
Frumvarpið verður rætt á þingfundi næsta mánudag. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði við mbl.is fyrr í dag að forvarnagjaldið gæti skilað milljarði í ríkissjóð.