Roksala á Dimmalimm og upplagið er á þrotum

Mikil sala hefur verið á barnabókinni Dimmalimm síðustu vikur eftir …
Mikil sala hefur verið á barnabókinni Dimmalimm síðustu vikur eftir að umræða um nýja útgáfu bókarinnar komst í hámæli. mbl.is/Árni Sæberg

Mikil sala hefur verið á barnabókinni Dimmalimm síðustu vikur eftir að umræða um nýja útgáfu bókarinnar komst í hámæli. Morgunblaðið hefur greint frá deilum um nýju útgáfuna og ljóst virðist að fjölmiðlaumfjöllunin hefur hreyft við mörgum.

Starfsfólk bókaverslana segir að mikið hafi selst af sígildu útgáfunni og undir það tekur útgefandinn. „Jú, við höfum orðið vör við aukinn áhuga á sígildu útgáfunni á Dimmalimm, sem er virkilega ánægjulegt,“ segir Sigþrúður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Forlagsins, um upprunalegu útgáfu bókar Guðmundar Thorsteinssonar, Muggs.

Sigþrúður segir að þó ekki sé um neina metsölu að ræða sé salan mikil miðað við það sem verið hefur. „Á undanförnum vikum hefur farið jafnmikið og venjulega á heilu ári – og upplagið er á þrotum,“ segir hún. Áhugasamir þurfa þó ekki að örvænta því enn liggja birgðir í bókabúðum svo hægt er að næla sér í eintak til að læða í jólapakka hjá nýrri kynslóð bókaorma. Og þá er spennandi útgáfa á teikniborðinu. „Við ætlum að leyfa bókinni að klárast alveg og gefa svo út fallega útgáfu á nýju ári í tilefni af 100 ára ártíð Muggs.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert