Samgöngustofa hefur gefið út bann við drónaflugi fyrir ofan og nálægt Grindavík vegna yfirvofandi eldgoss í nágreninu.
Þetta tilkynnir Samgöngustofa, sem segir að bannið hafi þegar tekið gildi og gildi til miðnættis 29. nóvember.
Drónaflug á vegum ríkislögreglustjóra, almannavarna og Landhelgisgæslunnar er undanþegið.
Líkön unnin af sérfræðingum Veðurstofu Íslands sýna 15 km langan kvikugang sem liggur rétt norðvestan Grindavíkur.
Umfang kvikugangsins er verulegt og kvika er að nálgast yfirborð. Þykja verulegar líkur á að kvika nái að brjóta sér leið til yfirborðs og auknar líkur eru á að kvika geti komið upp á hafsbotni.