Samgöngustofa bannaði drónaflug nálægt Grindavík að beiðni almannavarna í dag.
Var þetta annars vegar gert til að koma í veg fyrir að flygildin trufli hugsanlegt vísindaflug og hins vegar til að tryggja að fólk fari ekki inn á skilgreind hættusvæði, að sögn upplýsingafulltrúa Samgöngustofu.
Búið er að banna drónaflug fyrir ofan og nálægt Grindavík vegna yfirvofandi eldgoss í nágrenninu. Drónaflug á vegum ríkislögreglustjóra, almannavarna og Landhelgisgæslunnar er undanþegið.
„Þetta eru í rauninni bara tvær ástæður: vísindaflug, sem getur reynst nauðsynlegt en almannavarnir gætu þurft að svara meira um hvort það sé fyrirhugað, og hins vegar er verið að tryggja það að fólk sé ekki á svæðinu,“ segir Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, í samtali við mbl.is, spurð hvers vegna drónaflug hefur verið bannað.
Hún bætir við að það hafi verið gert að beiðni almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Þórhildur segist ekki kannast við það hvort ákvörðunin hefði verið tekin vegna einhverra nýrra upplýsinga um þróun jarðhræringanna á Suðurnesjum.
Aðspurð segist hún ekki geta fullyrt um það hvort fjölmiðlar geti fengið undanþágu frá þessu banni en efast þó um að svo verði.
Í augnablikinu séu aðeins ríkislögreglustjóri, almannavarnir og Landhelgisgæslan undanþegin frá banninu.
„En hins vegar geri ég ráð fyrir að slíkar beiðnir yrðu skoðaðar, komi til þess að það verði nokkuð sjónrænt að sjá,“ segir hún að lokum.