Einblína nú mest á eitt svæði

„Við sjáum áframhaldandi færslur þar á meðan allt er að …
„Við sjáum áframhaldandi færslur þar á meðan allt er að verða kyrrt, eða kyrrara, annars staðar,“ segir Benedikt. Kort/mbl.is

„Við erum enn þá að sjá færslur sem gætu bent til þess að kvika sé að koma til yfirborðs,“ segir Benedikt Gunn­ar Ófeigs­son, sér­fræðing­ur í jarðskorpu­hreyf­ing­um hjá Veður­stofu Íslands.

„Skjálftavirknin er stöðug og hún hefur ekki sýnt að hún sé að grynnka. Þannig við erum að bíða átekta og það getur svo sem brugðið til beggja vona,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Sérfræðingar einblíni á svæði norðvestan við Grindavík þar sem þeir sjái mest sigdalinn og haldi áfram að sjá færslur, sem bendi til þess að kvika geti brotið sér til yfirborðs. 

Skiptir minna máli ef það gýs annars staðar

„Við sjáum áframhaldandi færslur þar á meðan allt er að verða kyrrt, eða kyrrara, annars staðar,“ segir Benedikt.

Hann segir þó ekkert útiloka að kvika komi upp annars staðar á svæðinu eða jafnvel til sjávar, en segir það einnig vera nálægð við byggð sem beini sjónum vísindamanna að svæðinu.

„Nálægð við bæinn, hún fókuserar okkur þangað. Það skiptir minna máli ef það gýs einhvers staðar annars staðar,“ segir Benedikt en bætir þó við að það gæti vissulega orðið stórmál ef gjósa myndi til sjávar. 

Keyra líkön til að skera úr um dýpt kvikunnar

Aðspurður segir Benedikt nýjar upplýsingar um dýpt kvikunnar ekki liggja fyrir að svo stöddu, en að verið sé að keyra líkön.

„Í gær­kvöldi var hún kom­in í 800 metra, svo hún er tölu­vert grynnra núna. Það gætu verið ein­hverj­ir tug­ir metra í hana,“ segir Þorvaldur Þórðarson prófessor í samtali við mbl.is nú í kvöld.

Síðustu líkön bentu til þess að kvika væri um 800 metra frá yfirborði, en gögnin eru frá því í gærmorgun.

„Við erum að keyra módel núna sem byggja á gervitunglagögnum og GPS-gögnum síðan í dag,“ segir Benedikt.

„Ég er að vonast til þess að við getum notað þessi gögn til þess að uppfæra hættumatið í fyrramálið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert