Íbúum í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík er einungis heimilt að sækja gæludýr og ómissandi eigur.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum og þar segir að um sé að ræða skipulagða og stýrða aðgerð undir stjórn lögreglunnar.
Heimildin nær eingöngu til þessa tiltekna hverfis, ekki annarra hverfa eða svæða í Grindavík.
Þá segir að sérstök aðgerð sé í gangi til þess að sækja alla hesta í hestahverfinu norðan við Austurver.
„Við ítrekum við aðra íbúa að keyra alls EKKI í átt að Grindavík og ekki safnast saman á lokunarpóstum. Íbúar í Þórkötlustaðahverfi sem fá að fara inn til Grindavíkur fara ekki þangað á eigin bílum. Íbúar sem fá að fara inn í til Grindavíkur eiga að koma á söfnunarstaðinn sem er bílastæðið við gossvæðið, við Fagradalsfjall,“ segir í tilkynningunni.
Ekki er heimilt að aka í gegnum Grindavíkurbæ, því þarf að koma um Suðurstrandarveg að austan eða frá Þorlákshöfn eða Krýsuvíkurvegi.
„Heimild til þess að fara inn í bæinn er ábyrgðarhluti og ekki léttvæg ákvörðun og þýðir alls ekki að svæðið sé að öðru leyti opið fyrir umferð. Þetta verður skipulögð og stýrð aðgerð undir stjórn lögreglunnar,“ segir í tilkynningunni.
Til athugunar fyrir íbúana:
Ekki liggur fyrir hvort eða hvenær mögulegt verður að fara í samskonar leiðangra í önnur hverfi.