Urður Egilsdóttir
Ef Grindvíkingum verður hleypt aftur heim til sín þá verður það einungis í örstutta stund og til þess að sækja lífsnauðsynjar. Fólki verður ekki heimilað að aka á eigin bílum.
Þetta segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, í samtali við mbl.is.
Veðurstofan fundar nú með viðbragðsaðilum um nýjustu gögn og hættumatið. Ekki er stefnt að því að halda upplýsingafundur að sögn Hjördísar.
„Við biðjum fólk – eins erfitt og það er – að fara ekki af stað. Bíða eftir fyrirmælum.“
Hún segir að ef fólki verður leyft að fara í bæinn verði einum af hverju heimili heimilt að fara á svokallaða söfnunarstaði, bílastæði eða annað slíkt, og síðan keyrt til Grindavíkur.
„Áhættan er til staðar áfram. Hugsunin er að ef þú þarft ekki að fara þá áttu ekki að fara.“