Funda áfram í dag vegna skólamála

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir vinnu vegna úrræða fyrir grunn-og …
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir vinnu vegna úrræða fyrir grunn-og leikskólabörn mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir forsvarsmenn Grindavíkurbæjar hafa rætt við borgarstjóra og bæjarstjóra á höfuðborgarsvæðinu, sem og fulltrúa nærliggjandi sveitarfélaga, vegna vinnu við að finna úrræði fyrir grindvísk skóla-og leikskólabörn. 

Hann segir vinnuna í fullum gangi og að í dag taki við fleiri fundir sem snúi að því að koma til móts við börn sem sæki leik-og grunnskóla í Grindavík. 

„Við erum búin að halda fundi í gær út af þessum málum, höfum talað um skólamál við borgarstjóra og við alla bæjarstjóra á höfuðborgarsvæðinu og fulltrúum innan sveitarfélaganna á Suðurnesjum,“ segir Fannar. 

„Það er komin í gang vinna við að finna úrræði vegna skólabarna og leikskólabarna og vegna íþróttamála. Allir þessir aðilar taka mjög vel í það að rétta fram hjálparhönd og ég myndi segja að við værum bara á ágætis stað.

Við munum funda aftur í dag og það er líka búið að funda með öllum fræðslustjórum þessara sveitarfélaga þannig að við erum að gera okkar besta til þess að það sé hægt að koma börnum fyrir í leikskólum og skólum núna fljótlega.“

Biðstaða hvað varði fólk sem vinnur í Grindavík

Spurður hvort unnið sé að úrræðum fyrir vinnandi fólk í Grindavík segir Fannar það vera flóknara mál. 

„Það fer auðvitað enginn til vinnu þangað við þessar aðstæður. Það er þess vegna biðstaða í því máli og við verðum að sjá hvað setur,“ segir Fannar. 

„En talandi um íbúana erum við líka að leggja mikla áherslu á að ráða fram úr húsnæðismálum sem er auðvitað stórmál. Við erum búin að halda fundi um það og það er hópur í því að reyna að finna bestu lausnina í þeim efnum.“

Þakklátur samhug þjóðarinnar

Fannar segir það erfitt að fullyrða neitt um hvað taki við og því reiði Grindvíkingar á niðurstöður og leiðbeiningar frá sérfræðingum og vísindamönnum. 

„Ég er núna staddur í Skógarhlíðinni og er búin að vera þar bæði í gær og í dag. Hérna er okkar færasta fólk og það er aðallega það sem þetta gengur út á, að vita hvað er á seyði og hvers má vænta í þessari flóknu stöðu.“

Þrátt fyrir að hafa þurft að takast á við krefjandi verkefni síðustu daga sem reynt hafi verulega á íbúa Grindavíkur kveðst Fannar loks þakklátur fyrir þann stuðning sem samfélag bæjarins hefur fundið fyrir. 

„Það er frábært að sjá hvernig samfélagið allt saman og þjóðin sýnir okkur samhug og vill leggja sitt af mörkum til aðstoðar. Við erum afskaplega þakklát fyrir þann mikla stuðning sem við finnum fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert