Gæti myndast ný eyja

Horft yfir Reykjanesskagann.
Horft yfir Reykjanesskagann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skorpan sem myndar Reykjanes er að rifna í sundur fyrir augum okkar,“ segir í færslu Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings á bloggi hans.

Haraldur segir að skorpuhreyfingarnar þessa daga séu með merkustu atburða í jarðsögu Íslands. 

Flekahreyfingarnar fletti ofan af heita reitnum í möttli jarðar undir Íslandi og að hiti í möttlinum sé um 1400 gráður.

Yrði af sömu gerð og Surtseyjargos

Hann segir að einfaldasta túlkunin á atburðunum sé að kvikugangur hafi myndast sem klauf jarðskorpuna til suðvesturs, alla leið út á landgrunn. 

Haraldur telur að ef meiri kvika streymi inn í ganginn séu allar líkur á því að hann haldi áfram að vaxa til suðvesturs. 

„Þá er hætt við að gangurinn komi fram á landgrunninu fyrir sunnan höfnina í Grindavík, myndi þar gos á hafsbotni og ef til vill nýja eldey, ef næg kvika er fyrir hendi,“ segir í færslunni. 

Ef gýs á hafsbotni gæti það gerst á 150 til 200 metra dýpi, „en slíkt gos væri þá af sömu gerð og Surtseyjargos“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert