Gáfu grindvískum börnum bangsana sína

Gylfi segist finna fyrir miklum samhug í garð Grindavíkinga sem …
Gylfi segist finna fyrir miklum samhug í garð Grindavíkinga sem þurft hafa að yfirgefa heimili sín vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga. mbl.is/Stefán Einar

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður fjöldahjálparstöðva, segir nóttina hafa gengið vel fyrir sig í Kórnum og að greinilegt sé að hugur þjóðarinnar sé með íbúum Grindavíkur. 

í Kórnum dvelja nú rúmlega 50 manns sem þurft hafa að yfirgefa heimili sín vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga. 

Nóttin gekk vel þrátt fyrir bilun í innbrotskerfi

Þrátt fyrir bilun í innbrotskerfi Kórsins rétt fyrir miðnætti í gær segir Gylfi nóttina hafa gengið ágætlega. 

„Það var bilun í innbrotskerfinu þannig að það fór í gang rétt fyrir miðnætti og glumdi hér í einhverjar fjörutíu mínútur áður en að hægt var að laga það. En að því sögðu gekk nóttin bara ljómandi vel fyrir sig og það var komin ró fljótlega eftir miðnætti. Nú er fólk bara að borða morgunmatinn sinn og koma á fætur þannig að að öðru leyti hefur þetta gengið mjög vel,“ segir Gylfi. 

Vaktin mönnuð sjálfboðaliðum og starfsfólki

Að sögn Gylfa er hjálparmiðstöðin í Kórnum vel mönnuð af bæði starfsfólki og sjálfboðaliðum á vegum Rauða krossins sem staðið hafa vaktina frá upphafi. 

„Þegar að við sendum út kall á okkar sjálfboðaliða fáum við alltaf stóran hóp af fólki sem er tilbúið að leggja okkur lið. Svo hafa börn verið að koma hingað og gefa okkur bangsana sína. Í gær komu til dæmis fjórar stelpur með stóran poka af böngsum sem þær vildu gefa börnum úr Grindavík,“ segir Gylfi. 

Þurfa ekki fleiri gjafir 

Hann segir hjálparmiðstöðinni í Kórnum hafa borist fjöldi gjafa frá fyrirtækjum og einstaklingum síðustu daga sem endurspegli þann mikla samhug sem ríki með Grindvíkingum vegna ástandsins á Reykjanesskaga. 

„Fyrirtæki hafa verið að gefa okkur og styrkja okkur bæði með matargjöfum, drykkjarföngum og öðru. Núna erum við í þeirri þægilegu stöðu að við þurfum ekki fleiri gjafir, hvorki frá fyrirtækjum né einstaklingum.

Við erum komin með nóg af öllu og það væri þá frekar að benda bara á að ef að eitthvað vantar munum við láta vita af því, en það er óþarfi að koma með meira,“ segir Gylfi.

„Það er greinilegt að hugur þjóðarinnar er með Grindavík þessa dagana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert