Gos orðið líklegra: Rætt um tveggja vikna rýmingu

Grindvíkingar í Þórkötlustaðahverfi hafa fengið að sækja eigur sínar í …
Grindvíkingar í Þórkötlustaðahverfi hafa fengið að sækja eigur sínar í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vel hefur gengið hjá þeim íbúum, sem hleypt var inn á skilgreint svæði í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík eftir hádegi í dag, að sækja gæludýr sín og ómissandi eignir.

Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna.

„Það gekk bara mjög vel eftir að þetta fór af stað og ég held að allir þeir sem fengu leyfi til að fara inn á svæðið séu búnir að ná því sem þeir fengu leyfi fyrir. Nú erum við komnir með reynslu og plan sem er að hægt að slípa til fyrir morgundaginn ef það verður hægt að fara inn á svæðið á morgun. Það byggir algjörlega á hættumatinu sem við ætlum að gera í fyrramálið,“ segir Víðir við mbl.is.

Víðir Reynisson og Jón Þór Víglundsson, upplýsingafullrúi Landsbjargar.
Víðir Reynisson og Jón Þór Víglundsson, upplýsingafullrúi Landsbjargar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rýmingin er ótímabundin

Íbúum Grindavíkur var gert að rýma bæinn á föstudagskvöld. Það var ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum sem tekin var vegna ráðgjafar almannavarna.

„Þessi rýming er ótímabundin. Ef við gefum okkur að það að þessi atburðarás hætti þá tekur það einhvern tíma að vera fullviss um að það sé allt búið. Það eru skemmdir sem þarf að laga eins og í gatnakerfinu, lögnum og öðru slíku,“ segir Víðir. 

„Við höfum talað um tvær vikur í þessu sambandi ef atburðarásin hættir. Ef það byrjar hins vegar að gjósa þá lengist tíminn og það verður ekkert hægt að vera í bænum þann tíma sem gos er í gangi þó það verði langt frá bænum. Rýmingin mun gilda meðan gos er í gangi,“ segir Víðir.

Meiri líkur á að það byrji að gjósa

Líkurnar á gosi. Eru þær minni heldur en voru í gær?

„Nei ég held að þær séu meiri. Það er ekkert lát á atburðarásinni þótt hreyfingarnar séu orðnar minni. Það eru áfram jarðskjálftar og það er ekkert sem bendir til annars en að atburðarásin sé ennþá í gangi sem við höfum alltaf sagt að geti endað með gosi. Líkurnar eru því meiri en minni að það verði gos,“ segir Víðir.

Víðir segir að allt almannavarnarkerfið hafi virkað vel frá því skjálftahrinan hófst undir lok október.

„Þótt það sé búið að vinna mikið síðustu fjögur árin þá hefur verið gríðarlega mikil vinna síðustu tvær vikur eftir að þessi atburðarás fór í gang og það skilaði sér mjög vel á föstudaginn og núna um helgina í öllum viðbúnaði,“ segir Víðir.

„Nú fer að reyna á aðra þætti eins og skólamál, velferðarmál og vinnu fólks. Nú þarf að fara að huga að þessum málum. Það er mikil óvissa hjá Grindvíkingum og það er ekki þægileg staða sem þeir eru í.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert