Urður Egilsdóttir
Almannavarnir vonast til að geta hleypt Grindvíkingum heim til sín í örstutta stund í dag til að sækja helstu nauðsynjar.
„Við erum búin að gera áætlanir um það að ef hættumatið leyfir að það verði hægt að snúa eldsnöggt heim til sín í dag til þess að sækja svona það allra nauðsynlegasta,“ segir Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, í samtali við mbl.is.
Víðir ítrekar að leyfið byggi algjörlega á nýju hættumati sem má vænta er búið verður að lesa og bera saman nýjustu gögn, um ellefu leytið.
„Við vorum tilbúin með þetta í gær en þá var ekki talið óhætt að gera þetta í gær. Við vonum bara að staðan sé þannig að það sé hægt að gera þetta í dag. Þannig að við erum bara tilbúin með plön sem verða kynnt rækilega um leið og við sjáum hvort að það sé framkvæmalegt.“
Víðir segir að öryggi íbúa sé í fyrirrúmi.
Fréttin hefur verið uppfærð.