Alls bárust 110 athugasemdir frá einstaklingum og stofnunum í Skipulagsgáttina vegna kynningar á matsáætlun Sundabrautar. Kennir þar margra grasa. Íbúar í Grafarvogi óttast neikvæð áhrif á náttúru og dýralíf sem og mengun og ónæði af brautinni og vilja jarðgöng. Og íbúasamtök Laugardals hafna alfarið brú yfir Kleppsvík enda myndi tilkoma hennar stórauka bílaumferð inn í hverfið. Samtökin vilja að brautin verði í jarðgöngum undir víkina. Búast má við því að næstu árin verði deilur um þessa miklu framkvæmd.
„Ljóst má vera að öllum hugmyndum um brú, þvert á gildandi samþykktir borgarstjórnar, og þvert á vilja íbúa hverfisins, verður mótmælt kröftuglega á öllum stigum með öllum þeim úrræðum sem íbúar hafa til að forða hverfinu sínu frá stórslysi. Ef af Sundabraut verður, leggja Íbúasamtök Laugardals því eindregið til að farin verið gangaleið og öllum áætlunum um brú verði kastað fyrir róða, enda verði aldrei nokkur sátt um þær,“ segir m.a. í athugasemdum Íbúasamtaka Laugardals (LÍ).
Fram kemur að íbúasamtökin hafi lengi fylgst með umræðum og áætlunum um Sundabraut vegna ótvíræðra hagsmuna íbúa í hverfinu þar sem um er að ræða meiri háttar breytingu á forsendum þess að búa í hverfinu ef hraðbraut á þjóðvegi 1 verður hleypt beint inni í hverfi sem þegar glímir við mikla umferð bíla.
ÍL hafi tekið þátt í samráði um Sundabraut á árunum 2005-2007 ásamt Reykjavíkurborg, Vegagerðinni og Íbúasamtökum Grafarvogs. Í því samráði hafi verið farið vandlega yfir málin, hugsanlegar lausnir, umferðarspár, hagkvæmni og umhverfisáhrif á íbúana ef af yrði. Niðurstaðan hafi verið skýr, fyrir íbúa væru göng heppilegasta lausnin, á ytri leið, sú lausn sem helst myndi hlífa íbúum við miklum áhrifum umferðar og mengunar. Undir þetta hafi borgarstjórn tekið og samþykkt einróma snemma árs 2008 að Sundabraut yrði í göngum. Borgarstjórn hafi ekki breytt afstöðu sinni til þess síðan.
„Árið 2021 hefst umræðan aftur og allt í einu er gert ráð fyrir brú sem þverar hafnarsvæði Samskipa og framhald hennar á síðan að liggja í plani beint inn í Laugardalshverfi um Holtaveg, Langholtsveg, Álfeima. Á þessu svæði eru fleiri en einn leikskóli, grunnskóli, frístundaheimili sem og þétt byggð íbúa sem yrðu mjög útsettir fyrir mengun og umferðarhættu, enda er talið að tugþúsundir bíla myndu fara um þessa brú á degi hverjum. Ekki er hægt að gera ráð fyrir öðru en að mikill fjöldi þeirra færi þessa leið í gegnum hverfið, íbúum til mikillar ánauðar og eignatjóns,“ segja íbúasamtökin.
Í athugasemdum íbúaráðs Grafarvogs er einnig mælt með göngum undir Kleppsvíkina því brú á þessum stað muni alltaf fylgja hávaði og óumdeild sjónmengun. Í Gufunesi sé nú skipulögð íbúðarbyggð og fjölbreytt útivistarsvæði sem er tengt nærliggjandi hverfum Grafarvogs. Því liggi í augum uppi að eðlilegast sé að hugsa upp á nýtt a.m.k. útfærslu þess hluta brautarinnar sem tilheyrir Grafarvogi.
Ítarlegri umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 9. nóvember.