Líkur á eldgosi ekki minnkað

Magnús Tumi segir hægari atburðarás liðinnar nætur ekki draga úr …
Magnús Tumi segir hægari atburðarás liðinnar nætur ekki draga úr líkum á eldgosi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Magnús Tumi Guðmundsson jarðaeðlisfræðingur segir líkur á eldgosi ekki hafa minnkað þrátt fyrir að hægt hafi á atburðarásinni á Reykjanesskaga. 

Þá sé erfitt segja til um stærð gossins, en að sögn Magnúsar er innrennsli í ganginn ennþá margfalt minna heldur en það var í upphafi. 

Innflæðið einungis brot af því sem var

„Það hægir á atburðarrásinni en hún er ekki stöðnuð. Það er ennþá að koma inn kvika en hún kemur inn mun hægar en hún gerði framan af.

Innflæðið er orðið bara brot af því sem það var í upphafi og það er ekki að sjá að það sé mikill þrýstingur á þessari kviku þannig að hún þýtur ekki upp til yfirborðsins eins og gerist í Heklu eða á Grímsvötnum og á slíkum stöðum,“ segir Magnús Tumi. 

„Verðum að vera viðbúin“

Þrátt fyrir að hægt hafi á atburðarásinni segir Magnús þó mikilvægt að viðbúnaður sé til staðar því enn séu líkur á gosi. 

„Við verðum að vera viðbúin því það er ennþá talið líklegt að þetta endi með gosi og að gos gæti verið mjög nálægt Grindavík. Þess vegna er hún lokuð og ekki talin örugg og þess vegna er fólk ekki þar,“ segir Magnús. 

„Við getum sagt að þetta sé tilbúið en svo er bara spurning hver þróunin verður, það verður bara að koma í ljós.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert